Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Enginn okkar er sérfróður um lúsmýið“

30.06.2020 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd: Erling Ólafsson - Náttúrufræðistofnun Íslands
Erling Ólafsson, skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, hefur litla trú á auglýsingum manna sem taka að sér að eyða lúsmýi. Til að verjast lúsmýi mælir hann með fínriðnu neti fyrir opnanlega glugga, og viftu til að halda lofti í svefnherbergi á hreyfingu. Þetta kemur fram í nýrri færslu hans á Facebook-síðu hans, Heimur smádýranna.

Erling segir lúsmýið enn á ný hafa „náð góðu flugi í umræðunni“. Hann minnir á að enginn sé sérfróður um lúsmý, því ósköp lítið sé vitað um tegundina. Til dæmis sé oftast talað um að lúsmýið hafi náð fótfestu hérlendis sumarið 2015, en hann telji sig hafa vísbendingar um lúsmýbit í sumarhúsum á Suðurlandi á níunda áratugnum. Lúsmýið hafi svo „blossað upp“ fyrir fimm árum, hugsanlega vegna breytts loftslags. 

Þá segir í færslunni að margt sé á reiki um lífshætti og uppeldisstöðvar lúsmýs. Því hafi verið haldið fram að uppeldisstöðvar þess væru í vatni en hann telji sennilegra að lirfurnar megi finna „í rökum rotnandi gróðursverði“.

Áhugi almennings á lúsmýi snúi þó helst að því hvernig forðast megi lúsmýbit. „Margt hefur verið reynt og brallað til að finna ráð, allskyns smyrsl og inntökur, lyktandi kryddjurtir og hvaðeina. Ekki skal ég blanda mér í slíkar umræður. Hins vegar tel ég að nota megi fínriðið net fyrir opnanlega glugga með umtalsverðum árangri, einnig viftu sem heldur lofti í svefnherbergi á hreyfingu, en þá þarf að umbera hvininn í henni. Lúsmý bítur fyrst og fremst sofandi fólk að nóttu til, eltist ekki við fórnarlömb sín úti að degi til líkt og bitmý. Séð hef ég auglýsingar manna sem taka að sér að eyða lúsmýi. Slíkt kaupi ég ekki.“

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV