Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki ljóst hvort sama malbik verður lagt á Kjalarnesi

30.06.2020 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Ekki er komið á hreint hvort sama efni verður notað til að malbika aftur vegarkaflann á Kjalarnesi þar sem tveir létust í umferðarslysi á sunnudag. Sýni úr malbikinu, sem reyndist of hált, verða tekin til rannsóknar hér á landi og send til Svíþjóðar.

Vegarkaflinn þar sem slysið varð var hálkumældur í gær. Í ljós kom að þar var enn of hált. Loftorka sá um framkvæmdina á Kjalarnesi og sér einnig um að malbika kaflann að nýju. Andrés Sigurðsson framkvæmdastjóri Loftorku segir í samtali við fréttastofu að ekki sé búið að finna út hvort breyta þarf samsetningu malbiksins sem verður notað að þessu sinni. 

Ákvörðun um það verður tekin þegar nánari niðurstaða liggur fyrir í rannsókn á gamla malbikinu. Sýni verður sent til Svíþjóðar, auk þess sem það verður rannsakað hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Vegarkaflinn var sandborinn í gær.

Fjórir aðrir vegarkaflar sem Loftorka malbikaði með sama efni frá Malbikunarmiðstöðinni Höfða eru undir eftirliti, meðal annars yfir Gullinbrú í Grafarvogi sem þegar er búið að fræsa upp. Hann reyndist álíka háll og kaflinn á Kjalarnesi. Hraðatakmarkanir hafa verið lækkaðar á öðrum köflum sem reyndust ekki eins hálir og hinir tveir.

Sáu strax að efnið væri ekki nógu gott

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að snemma hefði verið ljóst að efnið sem lagt var á Kjalarnesi væri of hált. Miðað er við að fari slíkir kaflar yfir fimm fermetra eigi að hætta verkinu eða byrja upp á nýtt.

„Eftirlitið, sem við bjóðum út í þessu tilviki, sá ekki að þetta væri í það miklu magni þarna á fimmtudagskvöldinu þegar verið var að leggja þetta út en sér samt að þetta er ekki alveg nógu gott. Þess vegna var merkt að kaflinn væri háll. En aftur á móti sjá þeir ekki það sem síðar gerist, að þetta verður ennþá hálla,“ sagði G. Pétur Matthíasson.