Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki hefur verið skipað í stöðu forstjóra Ríkiskaupa

30.06.2020 - 23:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enginn hefur enn verið skipaður í stöðu forstjóra Ríkiskaupa. Staðan var auglýst í lok apríl og rann umsóknarfrestur út þann 11. maí. 32 sóttu um stöðuna en þeirra á meðal voru Ari Matthíasson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri, og Höskuldur Þórhallsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður.

Á lista yfir umsækjendur má einnig finna framkvæmdastjóra, sérfræðinga og fjármálastjóra. Núverandi forstjóri Ríkiskaupa er Halldór Ó. Sigurðsson. 

Í auglýsingu um stöðuna segir að „forstjórinn þurfi að hafa framtíðarsýn fyrir rekstur og þjónustu ríkisins og frumkvæði og metnað til að hrinda verkefnum í framkvæmd. Viðkomandi mun taka virkan þátt í umbreytingarferli og innleiðingu aðgerða þvert á stofnanir ríkisins ásamt því að stýra stofnuninni og bera ábyrgð á rekstri hennar, þjónustu og árangri.“

Fjármála- og efnahagsráðherra skipar forstjóra Ríkiskaupa til fimm ára. Að sögn Evu Bjarkar Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, er málið enn í ferli. Hún væntir þess að ráðningin liggi fyrir fljótlega. 

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV