Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Belgar harma framgöngu sína á nýlendutímanum í Kongó

30.06.2020 - 19:35
Erlent · Afríka · Belgía · Black Lives Matter · Evrópa · Kongó · Styttur · Evrópa
Mynd: EPA / EPA
Konungur Belgíu segist harma mjög nýlendutíma Belga en belgísk yfirvöld hafa ekki gengist við framgöngu sinni í Kongó með þessum hætti fyrr. Sextíu ár eru í dag frá því að Kongó varð sjálfstætt ríki.

Nýlendutími Evrópumanna er nú skoðaður í nýju ljósi eftir mótmælin sem fylgdu dauða Georges Floyd í Minneapolis í maí. Styttur hafa verið rifnar niður, meðal annars af Leópold Belgíukonungi, sem stjórnaði stóru svæði í kringum Kongó-fljótið með harðri hendi undir lok nítjándu aldar. Talið er að milljónir saklausra Kongóbúa hafi fallið af hans völdum. Lýðveldið Kongó fékk ekki sjálfstæði fyrr en á þessum degi árið 1960, þegar Belgíska Kongó leið undir lok og fáni Lýðveldisins Kongó var dreginn að húni í Kinshasa, borg sem áður hét Leopoldville. Í Belgíu er nú hávær krafa um að styttur af Leopold, og fleiri sem tengjast nýlendutímanum, verði fjarlægðar. 

Fimm konur, sem fæddust í Belgíska Kongó um miðja síðustu öld og voru teknar frá foreldrum sínum mjög ungar, hafa höfðað mál gegn belgíska ríkinu. Þær krefjast bóta og að belgíska ríkið gangist við brotum nýlendutímans. Stjórnvöld í Belgíu hafa dregið það lengi að biðjast afsökunar, líklega vegna þess að þá þyrftu þau að greiða bætur þeim sem brotið var á. Filippus Belgíukonungur sagðist í bréfi til forseta Kongó í tilefni tímamótanna harma mjög nýlendutíma Belga, og nú á loksins að horfast í augu við fortíðina. 

Skemmdir hafa verið unnar á styttum af Leópold víða í Belgíu síðustu daga og af og til síðustu áratugi. Þeir Belgar sem hafa barist fyrir því að stytturnar yrðu fjarlægðar hafa fengið byr í seglinn eftir að Black Lives Matter hreyfingin óx ásmegin víða um heim. Borgaryfirvöld í Ghent ákváðu að fjarlægja styttu af Leópold í dag, og hún var flutt á brott við mikinn fögnuð viðstaddra. Stjórnvöld í Belgíu hafa lengi átt í erfiðleikum með að takast á nýlendutímann og reynt að beina athyglinni að því sem kallað hefur verið jákvæðar hliðar nýlendustefnunnar.