Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aldraðir með lítil réttindi fá meiri stuðning

Mynd með færslu
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. Mynd: RÚV
Aldraðir sem búa hér á landi og eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi hafa nú rétt til félagslegs viðbótarstuðnings sem getur verið allt að 90% af fullum ellilífeyri. Frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra þar um var samþykkt á Alþingi í gær.

Breytingin tekur til fólks frá 67 ára aldri sem hefur fasta búsetu og lögheimili hér á landi og dvelur hér varanlega. Erlendir ríkisborgarar verða að hafa ótímabundið dvalarleyfi til að njóta þessara réttinda og að hafa verið búsettir hér á landi í að minnsta kosti tvö ár.

Í lögunum segir að ekki komi til greiðslu þessa viðbótarstuðnings ef fólk á fjórar milljónir króna eða meira í peningum eða verðbréfum. Þá falli greiðslurnar niður ef fólk dvelur erlendis lengur en 90 daga samfellt eða lengur en 90 daga á ári. Til að geta fengið greiðslurnar þarf fólk að hafa áður sótt um og tekið út að fullu öll réttindi sem það kann að eiga eða hafa áunnið sér. Frítekjumark vegna annarra tekna er 25.000 krónur á mánuði.

Frumvarpið byggist í meginatriðum á tillögum í skýrslu starfshóps um kjör aldraðra sem var afhent ráðherra í byrjun síðasta árs.