„Aldagamalt misrétti verður ekki upprætt á einni nóttu“

Mynd: EPA/Forlagið / EPA/Forlagið

„Aldagamalt misrétti verður ekki upprætt á einni nóttu“

30.06.2020 - 14:53

Höfundar

Aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku, lögregluofbeldi í Bandaríkjunum eða ótti Íslendinga við meinta COVID-smitaða glæpamenn frá Rúmeníu? Bókin Beðið eftir barbörunum eftir J.M. Coetzee kom fyrst út fyrir fjörutíu árum en nýverið líka í íslenskri þýðingu á prenti í fyrsta sinn. Hún þykir tala ótrúlega vel inn í samtímann.

Beðið eftir barbörunum eftir suður-afríska nóbelsskáldið J. M. Coetzee fjallar um fullorðinn embættismann í ónefndum bæ á mærum ónefnds heimsveldis. Íbúar bæjarins virðast vera í ágætu sambýli með þjóðflokknum sem lifir á jaðri heimsveldisins og allt er með kyrrum kjörum þar til sögusagnir fara að ganga um barbara utan hliðanna. Allt kapp er lagt á að verja landamærin fyrir ógninni. Sögumaðurinn er gagnrýninn á lögregluofbeldi en fljótlega verður ljóst að hann er ekki endilega betri, sjálfur þátttakandi í annars konar valdníðslu á barbörunum, hinu fólkinu. Loks verður óljóst hver er illmennið eða hvort það sé einhver verri en annar yfir höfuð. Kvikmynd byggð á bókinni var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í fyrra en almenn frumsýning á myndinni verður í ágúst. Hún skartar stjörnum á borð við Johnny Depp og Robert Pattinson en er leikstýrt af hinum kólumbíska Ciro Guerra. 

Rakst á hana í bókabúð í London og kolféll

Bókin kom út árið 1980 og talaði þá sterkt inn í stjórnmál Suður-Afríku, aðskilnaðarstefnu svartra og hvítra. Í henni má spegla ólíka hluti úr öðrum samfélögum hvort sem það er lögregluofbeldi í Bandaríkjunum eða ótti Íslendingar við rúmenska COVID-glæpamenn. Hún virðist því eiga brýnt erindi við samtímann.

Á ólgutímum í byrjun sumars kom bókin út í fyrsta sinn í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar á vegum Unu útgáfuhúss. Grunnurinn að þýðingunni var reyndar gerður aðeins örfáum árum eftir að bókin kom út þegar Sigurlína Davíðsdóttir þýddi hana og las í útvarpinu 1984. „Ég rakst á þessa bók í bókabúð í London og kolféll fyrir henni, fannst þetta með allra bestu bókum sem ég hafði lesið og ákvað að bjóða hana til lesturs í útvarpinu. Ég þýddi prufukafla og sendi inn,“ rifjar Sigurlína upp. Þýðingin kom ekki út á prenti þrátt fyrir umleitanir Sigurlínu því henni var tjáð að það væri galli að það væri búið að lesa hana í útvarpi og að þeir sem myndu hafa áhuga á bókinni væru líklega búnir að hlýða á hana þar. Síðan þá hefur Coetzee hlotið nóbelsverðlaunin og hann er í dag einn virtasti rithöfundur Afríku. Með auknum vinsældum höfundarins hefur eftirspurnin jafnframt aukist eftir þýðingum á verkum hans og því var ákveðið að hrinda henni loks í framkvæmd.

Sögusvið órætt vegna bælingar og ritskoðunar

Bókin sprettur úr aðskilnaðarstefnunni eins og bestu bækur Coetzees, að sögn Rúnars. „Hann er að endurskapa mynstur sem hann sér í kringum sig og það er ljóst að þeir atburðir sem hann er að fást við í sínu heimalandi eru í baksviði bókarinnar. Það að hann skuli sjá þörf fyrir að búa til ákveðna staðleysu sýnir hversu þrúgaður hann var sem rithöfundur og hann tjáði sig um hve mikil bæling og ritskoðun var í gangi á þessum tíma.“

Umburðarlyndi eða fordómafull þvermóðska

Sigurlína segir að bókin fjalli í grunninn um vald og hugmyndina um okkur á móti hinum. „Þarna rekast á menningarheimar og þetta er spurning um umburðarlyndi fyrir því eða einstefnukeyrslu á eigin skoðanir,“ segir hún.  Sem fyrr segir virðist bókin tala ótrúlega vel inn í samtímann og margt sem rímar við kerfisbundinn rasisma og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum. „Bæði í Suður-Afríku þá og Bandaríkjunum núna, þetta er aldagamalt misrétti. Auðvitað verður það ekki upprætt á einni nóttu en það verður heldur ekki upprætt nema það sé gengið í að gera það.“

„Hvítur evrópskur karlmaður fær ekki að tjá sig“

Rúnar hefur þýtt fleiri bækur eftir höfundinn og þekkir hann persónulega. Rúnar er dósent í ritlist og kennari við Háskóla Íslands. Hann minnist þess þegar hann var staddur í Suður-Afríku síðasta vor og hafði orð á því við konu sem hann kannaðist við að það gæti verið gaman að koma þangað og kenna ritlist. Honum var strax bent á að hann væri ekki rétti maðurinn til að gera það. „Mér er strax sagt af hvítri konu sem kennir við háskólann í Höfðaborg að það væri ekki séns fyrir mig. Hvítur evrópskur karlmaður fær ekki að tjá sig í Suður-Afríku og ekki kenna ritlist. Hvít kona ætti jafnvel erfitt með þetta,“ segir hann. „Það er verið að vinna úr svo mörgum málum þarna, hver má tjá sig, af hvaða kyni og á hvaða tungumáli.“

Rætt var um bókina Beðið eftir barbörunum eftir J. M. Coetzee í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Una útgáfuhús gefur út J.M.Coetzee