Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Áhyggjur af slæmu gengi Trumps í könnunum

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Áhrifamenn í Repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum hafa orðið áhyggjur í lélegu gengi Donalds Trumps í skoðanakönnunum að undanförnu. Talsmaður hópsins sem stýrir endurkjöri hans í haust segir ekkert að óttast. Ekkert sé að marka þessar kannanir.

Fox fréttasjónvarpsstöðin bandaríska, sem alla jafna fjallar á jákvæðan hátt um Donald Trump, hefur eftir ónafngreindum áhrifamanni í Repúblikanaflokknum að ef staða forsetans í skoðanakönnunum versnar á næstunni kunni svo að fara að hann hætti við að reyna að ná endurkjöri. Annar segist hafa heyrt orðróm um þetta. Þetta sé ólík kunni að geta gerst ef hann sjái enga leið til þess að sigra í baráttunni við Joe Biden, sem að öllum líkindum verður forsetaefni Demókrata.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fox News hefur Joe Biden tólf prósentustiga forskot á Donald Trump. Á vefnum RealClearPolitics sem birtir niðurstöður nýjustu kannana bendir vegið meðaltal þeirra til þess að forysta Bidens sé tæplega tíu prósentustig.

Fox News hefur eftir Tim Murtaugh, upplýsingafulltrúa framboðs Trumps, að þessi orðrómur sé afi falsfréttanna. Ekkert sé að óttast. Allir viti að skoðanakannanir sýni aldrei rétta mynd af fylgi við forsetann. Kannanir í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum hafi ávallt sýnt Hillary Clinton með meira fylgi en Trump. Hefðu þær verið réttar sæti hún í Hvíta húsinu núna, en ekki hann.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV