Áhyggjur af öryggislögunum fyrir Hong Kong

30.06.2020 - 17:38
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
epa08517087 Pro-democracy protesters take part in a 'lunch with you' rally at a shopping mall in Hong Kong, China, 30 June 2020. China's National People's Congress Standing Committee has unanimously approved a national security law for Hong Kong, prohibiting acts of secession, subversion, terrorism and collusion with foreign forces to endanger national security.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Evrópusambandið, Atlantshafsbandalagið og stjórnvöld í Bretlandi og fleiri ríkjum lýsa yfir áhyggjum og reiði vegna öryggislaganna fyrir Hong Kong sem kínverska þingið samþykkti í dag. Þau eru talin grafa undan réttarfarslegu sjálfstæði héraðsins og réttindum íbúanna.

Lögin gengu í gildi klukkan þrjú í dag að íslenskum tíma. Samkvæmt þeim má dæma þá í ævilangt fangelsi sem berjast fyrir aðskilnaði Hong Kong og Kína og hryðjuverkastarfsemi, að því er kínverska fréttastofan Xinhua greindi frá í dag.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir að nýju lögin sýni og sanni að Kínverjar deili ekki lífsgildum bandalagsþjóðanna um frelsi, lýðræði og virðingu fyrir lögum. Forsetar framkvæmdastjórnar og leiðtogaráðs Evrópusambandsins sögðu í yfirlýsingu að nýju lögin græfu undan sjálfstjórn og dómskerfi Hong Kong. Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, sakar Kínverja um að hafa með lagasetningunni gengið á bak loforða sinna um stjórnskipulega stöðu nýlendunnar fyrrverandi.

Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnarinnar í Hong Kong, sagði í dag þegar hún svaraði spurningum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að öryggislögin næðu einungis til agnarlítils hluta íbúa sem hefðu gerst lagabrjótar að undanförnu. Lögin væru sett til að vernda grundvallarréttindi og frelsi mikils meirihluta íbúa Hong Kong.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi