Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Áhersla á samfélagsþjónustu til styttingar boðunarlista

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, kynnti í gær aðgerðir til að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga. Starfshópur sem skipaður var af ráðherra skilaði skýrslu í gær með tillögum til úrbóta. Aukin áhersla á samfélagsþjónustu og sáttameðferð er þar ofarlega á baugi.

Á boðunarlista Fangelsismálastofnunar eru dómþolar sem bíða eftir að afplána dóm sinn. Dómþolum á boðunarlista hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum. Árið 2009 voru 213 einstaklingar á boðunarlista til afplánunar refsinga. Í ár eru þeir 638.

„Ástæða þess er einkum fjölgun og lenging óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga, fjölgun gæsluvarðhaldsfanga og ekki nægt fjármagn til nýtingar afplánunarrýma að fullu,“ segir á vef Stjórnarráðsins

Áslaug Arna sagði í viðtali í Síðdegisútvarpinu í gær að langur boðunarlisti væri kerfinu þungbær. „Boðunarlistinn er orðinn algerlega óviðunandi og það þarf að fara í mjög róttækar aðgerðir til að ná honum niður,“ segir hún og bætir við að kerfið ráði í sjálfu sér við þann fjölda einstaklinga sem dæmdur er í fangelsi ár hvert.

„En boðunarlistinn gerir það að verkum að kerfið ræður engan veginn við stöðuna.“ Sumir dómþolar hafi beðið lengur en þrjú ár eftir því að afplána dóm sinn. 

30 refsidómar gætu fyrnst á árinu

Áslaug Arna segir að ein af ástæðunum fyrir því að listinn sé jafnlangur og raun ber vitni sé slæm nýting fangelsa. Viðmiðið er 90 til 95 prósenta nýting en hér á landi er nýtingin rétt undir 80 prósentum. Þá hefur refsirammi sumra brota þyngst hér á landi sem gerir það að verkum að tími afplánunar lengist. 

Refsingar hafa fyrningartíma og þær geta fyrnst ef bið eftir afplánun dregst óhóflega. Áslaug segir að yfir 30 refsidómar gætu fyrnst á þessu ári. Biðin getur jafnframt reynst dómþolum þungbær.

„Bæði getur það gert það verkum að þú bætir ekki ráð þitt því þú ert hvort eð er að bíða eftir að fara í fangelsi eða að þú ert þegar búinn að bæta ráð þitt. Því er þetta alveg á skjön við þá betrunarvist sem við erum að boða í kerfinu.“ 

Aukin áhersla á samfélagsþjónustu og sáttameðferð

Tillögur starfshópsins að úrbótum eru sjö talsins. Í fyrsta lagi er lagt til að aukin áhersla verði sett á fullnustu refsidóma með samfélagsþjónustu. Áslaug Arna segir að úrræðið henti vel þegar brot eru tiltölulega væg. „Og þegar aðili fer í samfélagsþjónustu þá er hann ólíklegri til að koma til baka og líklegri til að aðlagast samfélaginu með einhverjum hætti.“ 

Þá er lagt til að heimildir ákærenda til að ljúka málum með sáttamiðlun verði rýmkaðar. Sáttamiðlun er úrræði sem felur í sér að gerandi og brotaþoli reyna að ná sáttum utan dómstóla.

Önnur úrræði sem starfshópurinn hefur lagt til eru til að mynda skilorðsbundin ákærufrestun og aukin áhersla á reynslulausn fyrir minniháttar brot eftir helming refsitímans. Vænlegt geti verið til árangurs að dæma fólk til viðeigandi meðferðar, til dæmis áfengis- eða sálfræðimeðferðar. „Það getur verið hluti af dómnum að klára slíkt,“ segir Áslaug Arna. 

Áslaug Arna bindur vonir við að listinn verði talsvert styttri strax á næsta ári „Ég mun ráðast strax í þetta og allar tillögurnar eru mjög góðar. Ég setti saman fjölbreyttan hóp fólks til að koma að þessu,“ segir hún og bætir við að sumar tillögurnar þurfi lagabreytingar til þess að verða að veruleika en aðrar ekki. „Ég tel sérstaklega að aukin samfélagsþjónusta muni hafa mikil áhrif á listann,“ segir hún. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV