700. markið kom er Barcelona missti af toppsætinu

epa08519043 FC Barcelona's Lionel Messi (C) converts a penalty during the Spanish LaLiga soccer match between FC Barcelona and Atletico Madrid at Camp Nou stadium, Barcelona, Spain, 30 June 2020.  EPA-EFE/ALBERTO ESTEVEZ
 Mynd: EPA-EFE - EFE

700. markið kom er Barcelona missti af toppsætinu

30.06.2020 - 22:15
Barcelona og Atlético Madrid skildu jöfn 2-2 í mikilvægum leik í toppbaráttu spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á Nývangi í Barcelona í kvöld. Argentínumaðurinn Lionel Messi skoraði 700. mark sitt á ferlinum í leiknum.

Barcelona náði forystunni í kvöld eftir ellefu mínútna leik er Diego Costa, framherji Atlético, skoraði sjálfsmark. Costa fékk tækifæri til að bæta fyrir mistökin fimm mínútum síðar þegar Atlético fékk dæmda vítaspyrnu. Costa lét Marc-André Ter Stegen aftur á móti verja frá sér en eftir endurskoðun myndbandsdómara kom í ljós að markvörðurinn hafði stigið af marklínunni við vörsluna. Því þurfti að endurtaka spyrnuna og Saúl Niguez tók þá við keflinu af Costa. Hann skoraði örugglega og jafnaði leikinn.

1-1 stóð í leikhléi en þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fengu heimamenn dæmda vítaspyrnu. Lionel Messi steig á punktinn og skoraði örugglega með vippu beint á markið. Mark Messi er hans 700. á ferlinum, 630 fyrir Barcelona og 70 fyrir argentínska landsliðið. Markið dugði þó ekki til sigurs þar sem Atlético fékk sína aðra vítaspyrnu í leiknum tæpum hálftíma fyrir leikslok. Saúl skoraði á ný og tryggði gestunum frá Madríd eitt stig.

Jafnteflið þýðir að Barcelona er í öðru sæti deildarinnar með 70 stig, aðeins stigi frá Real Madrid sem er á toppnum. Real á leik inni við Getafe á fimmtudag og getur þar víkkað bilið í fjögur stig þegar fimm leikir eru eftir.