Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

175 milljónir í sektir fyrir að skrá ekki eigendur

30.06.2020 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hátt í sex hundruð fyrirtæki hafa verið sektuð fyrir að láta hjá líða að skrá raunverulega eigendur sína líkt og nýleg lög kveða á um. Lögin voru sett til að bregðast við því að Ísland var sett á svokallaðan gráan lista alþjóðlegra samtaka sem berjast gegn peningaþvætti. Samkvæmt skriflegu svari Fyrirtækjaskrár við fyrirspurn Fréttastofu RÚV kemur fram að dagsektir nemi tíu þúsund krónum. Heildarfjárhæð sekta Fyrirtækjaskrár eru rúmar hundrað sjötíu og fimm milljónir króna.

Lögin voru samþykkt á Alþingi fyrir rúmu ári og í mars rann út frestur til að skrá raunverulega eigendur. Þeir sem eiga fjórðungshlut eða meira í félögum teljast vera raunverulegir eigendur.

Með lögunum eru innleiddar tilskipanir Evrópusambandsins en með þeim er líka brugðist við athugasemdum alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem kallaður er FATF, og gerði úttekt hér á landi árið 2017.