„Virðast hafa fengið VG og Framsókn á sitt band“

29.06.2020 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Samfylkingin gagnrýnir harðlega frumvarp um breytingar á samkeppnislögum. Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og framsögumaður fyrsta minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að með frumvarpinu verði samkeppniseftirlit á Íslandi stórlega veikt.  

„Nú á lokadögum þingsins ætlar ríkisstjórnin að keyra í gegn frumvarp sem mun veikja samkeppniseftirlitið. Nærtækara væri að styrkja samkeppniseftirlitið í því efnahagsástandi sem ríkir eftir COVID-19. Auk þess er íslenskt atvinnulíf lítið og einangrað í samanburði við alþjóðlegt markaðssvæði og gríðarlegt hagsmunamál fyrir neytendur að hér sé heilbrigt samkeppnisumhverfi,“ segir Oddný á þingfundi í dag.  

Breytingarnar auðveldi samruna stórra fyrirtækja 

Hún nefnir einkum tvennt sem flokkurinn gerir sérstakar athugasemdir við. Í fyrsta lagi sé frumvarpið til þess fallið að auðvelda samruna stórra fyrirtækja. Veltumörk tilkynningaskyldra samruna hækki verulega þannig að stórir samrunar verði ekki tilkynningaskyldir. Í öðru lagi verði fyrirtækjum sjálfum ætlað að meta hvort skilyrði samkeppnislaganna til samstarfs séu uppfyllt. Þannig verði mun fleiri samrunar undanþegnir eftirliti en nú er samkvæmt samkeppnislögum. 

„Ekki verður annað séð en að möguleikar til að grípa til aðgerða gegn háttsemi fyrirtækja sem hefur skaðleg áhrif á samkeppni, almenningi til tjóns, verði stórlega veiktir, gangi frumvarpið eftir.“ 

Sjálfstæðisflokkurinn fengið VG og Framsókn á sitt band 

„Lengi hefur Sjálfstæðisflokkurinn viljað veikja samkeppniseftirlitið og svo virðist sem þeim hafi tekist að fá VG og Framsókn á sitt band,“ segir Oddný. 

Hún rifjar upp ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna árið 2011 og aðgerðir þeirrar ríkisstjórnar til að styrkja samkeppniseftirlit. Flokkarnir hafi þá staðið saman „í því að efla nauðsynlegt eftirlit og aðhald gagnvart viðskiptalífinu“. Það skjóti því skökku við að Vinstri-grænir vilji nú veikja Samkeppniseftirlitið.   

Frumvarpið þvert á þróun samkeppnismála í nágrannaríkjum 

Oddný segir frumvarpið í engu samræmi við þróun samkeppnisreglna í Evrópu undanfarin ár. Það sé áhyggjuefni að „í stað þess að styrkja samkeppnislögin, í samræmi við það sem verið hefur að gerast  í Evrópu undanfarin ár, sé verið að veikja þau“.  

Hún krefst þess að þingið verjist atlögu sérhagsmuna stórfyrirtækja með því að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar.  

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi