„Verið að stofna biðlistamenningu að nýju“

29.06.2020 - 15:10
Mynd með færslu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar.  Mynd: Alþingi
Greidd voru atkvæði um breytingatillögur við tólf frumvörp á Alþingi í morgun. Málin fóru öll nokkuð vandræðalaust í gegn og búast má við að frumvörpin verði samþykkt í dag eða á morgun, auk fleiri frumvarpa sem eru á dagskrá þingsins. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu um samþykki til frestunar á fundum Alþingis, frá deginum í dag til 27. ágúst. Þingfundur stendur þó enn yfir og enn eru mörg mál á dagskrá. 

Lagafrumvarp utanríkisráðherra um skipun embættismanna var tekið af dagskrá, en til umræðu í dag eru meðal annars frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til breytinga á samkeppnislögum og frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Ræða frumvarp um eignarráð og nýtingu fasteigna

Síðustu tvo tíma hefur staðið yfir önnur umræða um frumvarp forsætisráðherra um breytingar á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna. Á vef forsætisráðuneytisins segir að markmið frumvarpsins sé að auka gagnsæi og treysta yfirsýn og stýritæki stjórnvalda, í þeim tilgangi að nýting lands sé í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi.

Töluvert vald fært til ráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarssdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir „margt við málið að athuga“. Eitt af þessum „gölnu ákvæðum“ í frumvarpinu sé að það sé verið að stofna biðlistamenningu að nýju. Þá vísar hún til þess að í frumvarpinu er lagt til að það verði skylda að afla samþykkis ráðherra fyrir ráðstöfun fasteignar sem er yfir ákveðnum stærðarmörkum. Þorgerður bendir á að fyrir nokkru síðan hafi slík biðlistamenning tíðkast í ráðuneytunum. Með þessu sé verið að færa töluvert vald til ráðherra.

Skynsamlegra væri að setja almennar reglur um eignarhald á jörðum. „Ég óttast að það verði háð því hversu sterk tengslin eru við ráðherra hverju sinni hvort það sé fyrirgreiðsla hér í málum eða ekki,“ segir Þorgerður. 

Ólíklegt að „ráðherra kæmist upp með eitthvað slíkt“

Bjarkey Olsen, þingmaður Vinstri grænna segist ekki kunna að meta „aðdróttanir um að viðkomandi þurfi að hafa tengsl við ráðherra til að fá málum sínum framgengt“. Þetta séu almennar reglur og verið sé að tala um örfá atvik á hverju ári. „Enda sjáum við ekki fyrir okkur á litlu landi eins og Íslandi að ráðherra kæmist upp með eitthvað slíkt.“ Þetta sé lagt til til að auka yfirsýn og gagnsæi. 

Þorgerður Katrín svarar að það komi henni ekki á óvart að Vinstri græn skuli beita sér fyrir því að málin fari inn í ráðuneytin. Hins vegar furði hún sig á því að Sjálfstæðisflokkurinn vilji það. „Og auðvitað mun það sýna sig að það skiptir máli í hvaða flokki ráðherrann er og með hvaða tengsl. Það er bara þessi íslenski veruleiki sem hefur mjög vel kristallast á þessu kjörtímabili.“

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi