Trump gagnrýndur fyrir að deila rasískri færslu

29.06.2020 - 12:19
Mynd: EPA-EFE / AP POOL
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að deila færslu á Twitter þar sem stuðningsmaður hans sést hrópa rasísk slagorð um yfirburði hvíta mannsins.

Trump deildi færslunni í gær á Twitter, þar sem hann er með ríflega 80 milljónir fylgjenda. Þakkir til frábæra fólksins í The Villages, skrifaði forsetinn, en myndbandið í færslunni er tekið í Villages í Flórída. Mynbandið virðist tekið í samkomu stuðningsmanna forsetans sem bera skilti sem á stendur Trump 2020 og Ameríka fyrst. Fljótlega sjást maður og kona koma akandi á golfbíl. Konan kallar nafn forsetans aftur og aftur, á meðan maðurinn rekur hnefann í loftið og hrópar: White Power, eða Valdið hjá hvítum.  

Segist ekki hafa heyrt ummælin

 Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt forsetan fyrir að deila slíkum boðskap er Tim Scott. Scott er eini svarti öldungadeildarþingmaður Repúblikana. Scott segir engan vafa leika á því að Trump hefði aldrei átt að deila færslunni. Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður sem sóttist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrata, skrifaði á Twitter að þarna hafi forsetinn náð því að verða enn rasískari og anstyggilegri en hugsast gæti. Nú sé mikilvægt að fólk sameinist um það að koma honum frá í forsetakosningunum í nóvember. Færslunni sem Trump deildi hefur nú verið eytt og í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að forsetinn hafi ekki tekið eftir ummælunum um yfirburði hvítra. 
 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi