„Þurfum að herða okkur til að missa ekki tökin“

29.06.2020 - 12:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra mun ekki hika við að breyta ákvörðunum. „Við þurfum að herða okkur til að missa ekki tökin,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í viðtali í hádegisfréttum í dag. 

Víðir segir að upp sé komin ný staða og nú komi til greina að herða reglur, til dæmis á vinnustöðum. Um það bil 470 séu í sóttkví og fólki í sóttkví fjölgi enn. Mikil áhersla sé nú lögð á að fólk fái sýnatöku, jafnvel þó það uppfylli ekki öll ströngustu skilyrði um sýnatöku. Ef fólk hafi einhverja tenginu við smitin verði það skimað hikstalaust. Íslensk erfðagreining meti nú hvort upptök innanlandssmitanna gætu verið fleiri en eitt.  

Hann vill ekki fullyrða um að farið hafi verið of hratt í tilslakanir. Vel hafi gengið að ráða niðurlögum faraldursins en nú sé fólk að hittast meira, faðmast og spritta minna. Nú þurfi að ganga hart fram í sýnatöku.

Stefnt sé á að yfirfara stöðuna fyrir blaðamannafund Almannavarna í dag kl. 14.  Fundinum verður streymt á RÚV.is.

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi