Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Það versta er enn ókomið“

29.06.2020 - 19:39
Mynd: EPA-EFE / EPA
Kórónuveirusmitum fjölgar á ógnarhraða í Brasilíu og farsóttin er í hröðum vexti þar og víðar. Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, segir fjarri að heimsfaraldurinn sé í rénun.

Rúmlega tíu milljónir hafa greinst með COVID-19 á heimsvísu og rúmlega 500 þúsund látist. Faraldurinn er í hröðum vexti í Brasilíu og fleiri ríkjum Suður-Ameríku, nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, Indlandi og víðar. „Það versta er enn ókomið. Mér þykir leitt að segja það en við aðstæður sem þessar þá óttumst við hið versta,“ sagði Tedros á blaðamannafundi síðdegis í dag. 

Nærri 260 þúsund greindust með veiruna í Brasilíu í síðustu viku, það eru hátt í 40 þúsund á dag. Nú dreifist veiran hratt frá stórborgunum og staðfestum smitum hefur ekki fjölgað svo hratt frá því faraldurinn hófst. Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur til þessa kallað COVID smávægilega flensu og neitað að vera með grímu, þó mælst hafi verið til þess frá því í apríl. Í síðustu viku setti hann upp grímuna, eftir að dómstóll úrskurðaði að forsetanum bæri að bera grímu á almannafæri. Hann heilsaði svo upp á stuðningsmenn sína í gær án grímunnar - en hann knúsar og kyssir stuðningsmenn sína við hvert tækifæri.