Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Telja malbikið á slysstað ekki hafa uppfyllt skilmála

29.06.2020 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir - RÚV
Vegagerðin telur að nýlögð klæðning á vegarkafla á Kjalarnesi, þar sem ökumaður og farþegi bifhjóls létust í gær í árekstri við húsbíl, uppfylli ekki skilyrði. Rannsókn beinist meðal annars að því hversu hált var á veginum. Formaður bifhjólasamtakanna Sniglanna segir að lengi hafi verið varað við hættulegum aðstæðum sem þessum.

Slysið varð með þeim hætti að húsbíll og bifhjól lentu saman og annað hjól fór út af veginum. Ökumaður og farþegi annars bifhjólsins létust og ökumaður hins hjólsins slasaðist alvarlega. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir að rannsókn á tildrögum slyssins sé í fullum gangi.

Rignt hafði á nýlagt malbik á veginum þar sem slysið varð og var mjög hált. Enginn grunur er um hraðakstur og Ásgeir segir ljóst að malbikið hafi verið mjög hált. Hluta Vesturlandsvegar verður lokað í dag klukkan eitt vegna rannsóknar á vettvangi.

Verktakinn skilaði ekki í samræmi við útboð

„Við lítum þetta náttúrlega gríðarlega alvarlegum augum. Þarna eru tveir verktakar að vinna fyrir okkur, annars vegar sá sem leggur klæðninguna og hins vegar sá sem hefur eftirlit. Og það er okkar mat að verktakinn hafi ekki skilað sínu verki í samræmi við útboðsskilmála. Við munum fara ofan í alla enda og kanta þessa máls,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar.

Vegagerðin heldur fund með verktökunum eftir hádegið. Aðspurð um ábyrgð segir Bergþóra að það eigi eftir að fara betur ofan í þau mál. Hún segir að varað hafi verið við hálku á vettvangi.

„Það voru settar upp merkingar. Það má alltaf örugglega hafa skoðun á því hvort þær væru nægar, en þær voru til staðar,“ segir Bergþóra.

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Frá aðstæðum á Kjalarnesi í gær.

„Við viljum ekki vera næst“

Þorgerður Fríða Guðmundsdóttir, formaður Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins, segir að lengi hafi verið varað við aðstæðum sem þessum.

„Þetta er bara hræðilegt. Mótorhjólafólk er bara lamað yfir þessu, hvernig þetta skeði. Þetta er bara eins og svell. Ég fór þarna upp eftir í gær og bara að stíga á malbikið, bara í skóm, er bara flughált. Hvað þá að vera á mótorhjóli eða bíl. Þetta er bara stórhættulegt. Mótorhjólafólk hefur verið að kvarta yfir þessu, bæði þarna og annars staðar. Þetta er úti um allt,“ segir Þorgerður.

Sniglarnir hafa boðað til mótmæla við skrifstofur Vegagerðarinnar á morgun þar sem skilaboðin eru skýr.

„Við viljum fá úrlausnir á þessu. Þetta verði lagað, þannig að það verði ekki fleiri slys. Við eigum vini og við eigum fjölskyldu. Við viljum ekki vera næst.“