Steingrímur óskar Guðna til hamingju með endurkjör

29.06.2020 - 11:02
Mynd: Skjáskot / Alþingi
Þingfundur hófst á ný í morgun klukkan 10.20. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis, hóf fundinn á því að óska Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, til hamingju með endurkjörið.

Fyrir helgi náðist sátt um að þinglok yrðu í dag eða í síðasta lagi á morgun. Á dagskrá í upphafi fundar í dag eru atkvæðagreiðslur um ýmis frumvörp. Fyrst voru greidd atkvæði um frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, sem heimilar að tilteknar samgönguframkvæmdir séu boðnar út sem samvinnuverkefni einkaaðila og hins opinberra.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri-grænna, sagði samvinnumálið vera „mikilvæga viðbót við samgönguáætlunina, átak til að flýta framkvæmdum“. Þetta væru heimildir Vegagerðarinnar til að leita samvinnu við fjárfesta í sex tilteknum ólíkum framkvæmdum. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, tók til máls og mæltist til þess „að ríkissjóður sæi sjálfur um það með sínum hagkvæmu lántökum“. Allar breytingatillögur voru samþykktar.

Þá er á dagskrá atkvæðagreiðsla um frumvarp heilbrigðisráðherra um lyfjalög, sem meðal annars er ætlað að tryggja lyfjaframboð, hagkvæma dreifingu á lyfjum og gæði og öryggi lyfja. Einnig verða greidd atkvæði um frumvörp um persónuvernd, atvinnuleysistryggingar, þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, loftslagsmál og fleira. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Tengdar fréttir