Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sex mánaða fangelsi fyrir tóbaksþjófnað í Fríhöfninni

29.06.2020 - 17:29
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa ítrekað stolið tóbaki úr Fríhafnarverslun í Leifsstöð. Áætlað verðmæti þýfisins er tæplega ein og hálf milljón króna.

Í dóminum segir að maðurinn hafi, í félagi við þrjá aðra menn, keypt sér flugmiða frá Íslandi ellefu sinnum yfir eins og hálfs mánaðar tímabil sumarið 2018. Mennirnir fóru aldrei um borð í flugvél í þessi ellefu skipti þrátt fyrir að eiga miða. Þess í stað yfirgáfu þeir flugstöðina eftir að hafa látið greipar sópa í Fríhöfninni. Þeir rændu tóbaki bæði úr brottfararverslun og komuverslun fríhafnarinnar. Mennirnir tóku samtals 217 sígarettukarton ófrjálsri hendi. 

Ákærði viðurkenndi skýlaust þá háttsemi sem hann var sakaður um. Hins vegar vildi hann meina að þýfið hefði numið lægri fjárhæð en tæpri einni og hálfri milljón. Fríhöfnin hafði uppi einkaréttarkröfu í málinu en henni var vísað frá dómi.

Einn af samverkamönnum mannsins var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í júní á síðasta ári. Þáttur hans í brotunum var stærri og var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi. 

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV