Nýtt smit greindist síðdegis í dag

29.06.2020 - 19:59
Mynd: RÚV / RÚV
Eitt nýtt smit greindist síðdegis í dag. Nú er í skoðun hvort smitið tengist hópsýkingunni sem kom upp fyrir helgi. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í viðtali við Boga Ágústsson í kvöldfréttum.

Hafa greinst fleiri tilfelli eftir blaðamannafundinn í dag? 

Já, það er líklegt að eitt tilfelli hafi greinst núna seinni partinn og er það til frekari skoðunar. 

Teljið þið að yfirvöld hafi stjórn á hópsýkingunni sem hefur verði talað um að undanförnu? 

Já, það er búið að greina núna fjóra til fimm einstaklinga sem er ekki stór hópur. Það er búið að rannsaka mjög marga og það eru meiri rannsóknir fyrirhugaðar. Þannig ég held þetta sé í nokkuð þokkalegu standi.  

Smitið sem þú varst að nefna núna, tengist það þeirri sýkingu sem hefur verið í umræðunni? 

Það á eftir að skoða það betur hvernig samgangurinn er, en það er líklegt.  

Þið eruð að fresta tilslökunum á fjöldatakmörkunum. Er mögulegt að það þurfi hugsanlega að taka skref til baka? 

Það gæti gerst ef við förum að fá hópsýkingar annars staðar. Jafnvel hópsýkingar sem ekki tengjast þessari sýkingu neitt sérstaklega. Og eins ef við förum a fá alvarlegar sýkingar. Þá þarf að skoða það mjög alvarlega hvort við þurfum að taka einhver skref aftur á bak.  

Þessi hópsýking sem upp er komin, er hún einhver vísbending um að það séu veikleikar í skimuninni á landamærunum? 

Nei, ég held ekki. Við erum búin að skima mjög marga og vissum fyrir fram að það gæti verið að við myndum missa af einstaklingum mjög skömmu eftir smit. Og það virðist vera í þessu tilfelli. Þannig það er hugsanlegt að það þurfi að koma til önnur nálgun á því að reyna að ná slíkum einstaklingum áður en þeir fara að smita frá sér. 

Er eitthvað hægt að segja um það hvort að núgildandi fjöldatakmarkanir verði í gildi fram yfir verslunarmannahelgi? 

Nei, það er ekki gott að segja neitt til um það. Við þurfum að taka eitt skref í einu, sjá hvernig okkur gengur að ráða við þessa hópsýkingu sem er í gangi áður en við förum að hugsa um næstu skref.  

Fréttin var uppfærð kl. 20:30

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi