Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nýtt malbik verður lagt yfir á Kjalarnesi

29.06.2020 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir - RÚV
Nýtt malbik verður lagt yfir kafla á Kjalarnesi á milli Grundarhverfis og Hvalfjarðarganga. Kaflinn var mældur í morgun og reyndist mun hálli en kröfur eru gerðar um af Vegagerðinni. Banaslys varð á veginum í gær þegar bifhjól og húsbíll skullu saman. Tveir létust og einn slasaðist alvarlega.

Ætla að lækka hraða og merkja betur í framtíðinni

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að nýjar reglur verði settar til framtíðar við lagningu malbiks um að hraði verður ætíð lækkaður. Hraðinn verður ekki hækkaður fyrr en viðnám malbiksins sé orðið ásættanlegt. Þekkt sé að nýlagt malbik sé hálla í byrjun en jafni sig nokkuð hratt.

Svæðið verður merkt með skiltum þannig að ekki fari á milli mála að mögulega sé malbik hálla en alla jafna og þá sérstaklega í miklum hita og/eða rigningu. 

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, sagði fyrr í dag að málið væri litið alvarlegum augum. Tveir verktakar unnu verkið fyrir Vegagerðina, annars vegar sá sem leggur klæðninguna og hins vegar sá sem hefur eftirlit. Sagði hún það mat Vegagerðarinnar að verktakar hafi ekki skilað sínu verki í samræmi við útboðsskilmála.

Malbikað verður á vegkaflanum um leið og aðstæður leyfa. Einnig verður kafli við Gullinbrú í Reykjavík fræstur og endurlagður. Aðrir kaflar sem gætu verið of hálir verða skoðaðir og lagfærðir ef þörf reynist á.