Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar kölluð saman

29.06.2020 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Dagur B. Eggertsson - Facebook
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, kallaði saman neyðarstjórn Reykjavíkurborgar í morgun, eftir nokkurra vikna hlé. Tilefni fundarins var grunur sem kom upp fyrir helgi um hópsýkingu á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundinum var ákveðið að miðla upplýsingum til starfsfólks og starfsstaða borgarinnar til að minna á smitvarnir og aukin þrif. Teknar verða til notkunar leiðbeiningar og spurningalistar vegna starfsfólks sem kemur til vinnu frá útlöndum, svo hægt sé að meta hvenær því er óhætt að mæta til vinnu. Almannavarnir eru á hættustigi, ekki lengur á neyðarstigi.  

Í morgun var einnig kölluð saman neyðarstjórn velferðarsviðs borgarinnar. Í tilkynningu kemur fram að reglur um heimsóknir á öldrunarstofnanir verði yfirfarnar og hertar og að farið verði yfir aðrar aðgerðir til að vernda viðkvæma hópa. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar gat ekki gefið upplýsingar um það að svo stöddu hvort breytingar yrðu á heimsóknarreglum á öldrunarstofnunum.