Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Losun íslenskra flugfélaga minnkaði milli 2018 og 2019

29.06.2020 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Raunlosun íslenskra flugrekenda dróst saman um 37,6 prósent á milli áranna 2018 og 2019. Þetta kemur fram í uppgjöri íslenskra þátttakenda í viðskiptakerfi ESB.

Ástæðan fyrir samdrættinum er sú að einn af stóru flugrekendunum hér á landi, WOW air, lagði upp laupana snemma á síðasta ári. Losun frá flugi hefur aukist stöðugt undanfarin ár og var hún einkar hröð milli 2016 og 2018. Athygli vekur að þótt losun hafi minnkað umtalsvert milli áranna 2018 og 2019, þá er losun árið 2019 þrátt fyrir það meiri en áður en WOW air hóf innreið sína á markað árið 2014.

Þá var heildarlosun frá flugi íslenskra flugrekenda sem fellur undir kerfið innan við eitt prósent af heildarlosun allra evrópskra flugrekenda innan kerfisins. Rétt er að nefna að hér er aðeins um að ræða losun innan EES svæðisins og því er Ameríkuflug ekki tekið með í reikninginn.

Fjórir flugrekendur skiluðu losunarskýrslu. Eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan er kemur langstærstur hluti losunar íslenskra flugfélaga frá Icelandair. Losun frá félaginu jókst milli áranna 2018 og 2019 eftir að WOW air hvarf af markaði. 

 

Mynd með færslu
Heildarlosun íslenskra flugrekenda frá 2013 til 2019. Mynd: Umhverfisstofnun.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda var komið á fót árið 2005. Það er gjarnan kallað ETS-kerfið, sem stendur fyrir Emission Trading System. Kerfið gegnir lykilhlutverki í aðgerðum Evrópusambandsins gegn loftslagsbreytingum. 

„Rekstraraðilum iðnaðar og flugrekendum er úthlutað losunarheimildum í samræmi við staðlaðar reglur sem samsvara fyrirfram ákveðnum takmörkunum. Það sem flugrekendur og rekstraraðilar losa umfram endurgjaldslausar losunarheimildir þurfa þeir að kaupa heimildir á markaði og er kerfinu þannig ætlað að vera hvati til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir á vef Umhverfisstofnunar. 

Viðskiptakerfi ESB fylgist einnig með losun í iðnaði. Hér á landi dróst losun í iðnaði á milli áranna 2018 og 2019 saman um 2,57 prósent. Heildarlosun í iðnaði var 1.807.063 tonn af CO2 ígildum árið 2019. Til samanburðar var heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið 596.124 tonn CO2 ígilda.

Hér má finna nánari upplýsingar um helstu niðurstöður uppgjörsins. 

Mynd með færslu
Heildarlosun íslenskra rekstraraðila innan gildissviðs ETS frá 2013. Mynd: Umhverfisstofnun.