Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Landsvirkjun réð særingamann til að kveða niður draug

Mynd: RÚV / RÚV

Landsvirkjun réð særingamann til að kveða niður draug

29.06.2020 - 19:45

Höfundar

Til stendur að rífa gömlu húsin í Akbraut í Holtum, en áður en það er gert þótti vissara að fá prest til að hrekja burt draug sem Daníel Magnússon bóndi kveður hafa leikið sig grátt fyrir nokkrum árum síðan. Presturinn fór með bænir og Sumarlandinn fylgdist með.

Við gamla bæinn í Akbraut í Holtum fór nýverið fram nokkuð óvenjuleg athöfn þegar meintur húsdraugur var kveðinn niður með særingarathöfn. Það sem gerir athöfnina enn óvenjulegri er að Landsvirkjun réð særingamann, séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, til verksins. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Daníel segir ljóst að draugurinn hafi ætlað sér að hrekja sig á brott

„Það var sennilega upp úr árinu 2002 sem ég verð var við að kýrnar mínar verða ókyrrar. Ég átti hund þá, sem sótti þær fyrir mig á meðan ég var að græja fjósið,“ rifjar Daníel Magnússon bóndi upp. Daníel kallaði á hundinn og það kom honum óþægilega á óvart að hundurinn skyldi ekki svara kallinu eins og hann var vanur. Hann sér þá skyndilega hvernig mikil þoka stígur upp úr jörðinni og hundurinn hverfur inn í hana. Kýrnar bregðast ókvæða við. „Þær hlaupa út úr fjósinu öskrandi og bölvandi alveg hreint. Mér leið ekki vel en þegar ég var búinn að róa þær fer ég inn fóðurganginn og þá er eins og ísköldu vatni sé skvett framan í mig. Ég hika en held áfram og þá er lagst þannig á mig að það er eins og mér sé stungið á margra metra dýpi í vatn. Að lokum er ég orðinn þannig að ég næ ekki að draga andann.“

Daníel náði andanum á ný eftir ósköpin og segir að sér hafi fljótt orðið ljóst að hvað sem hafði verið að hrella sig væri á brott í bili. Þá gerðist svolítið annað. „Þá er eins og hönd sé lögð á öxlina á mér og mér er sagt: Vertu rólegur. Það er verið að ráðast á þig. Það er verið að reyna að flæma þig í burtu.“ Hann ræddi við sjáanda sem sagði að árásin væri tilkomin vegna öfundar sem einhver bæri í garð Daníels því hann hefði náð svo góðum árangri með sínar kýr. „Hún sagði að svona fólki væri nær að gera frekar eins og ég, að ná árangri, frekar en að leggjast svona á aðra.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki þótti ráðlegt að rífa bæinn nema draugurinn væri kveðinn á brott

Það hlýtur að teljast óvenjulegt að hátæknifyrirtæki eins og Landsvirkjun ráði særingamann og gangi í svona verk. Ólöf Rós Káradóttir, verkefnastjóri á þróunarsviði Landsvirkjunar, viðurkennir það, „en okkur þótti sjálfsagt og eðlilegt að fara að óskum og ráðleggingum Daníels um að fá særingamann áður en húsið væri rifið. Hann þekkir svæðið best af öllu,“ segir hún. „Svo er hóllinn við hliðina álagahóll og við höfum hannað allt í kringum hólinn. Við munum ekki snerta hann, við tökum ekki sénsinn að hrófla við honum.“

Fylgst var með særingarathöfninni í Sumarlandanum í kvöld.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þetta lag er fyrir þig“

Menningarefni

„Sá þessa nörda og ætlaði ekki að vera ein af þeim“

Mannlíf

Keðjusögin getur komið manni í form