Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ísrael: Gantz vill fresta innlimun

epa08509169 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (C-L) and Israeli Defense Minister Benny Gantz (C-R), both wearing face masks, attend a graduation ceremony for new pilots at Hatzerim air force base near the southern Israeli city of Beersheba, Israel, 25 June 2020.  EPA-EFE/Ariel Schalit / POOL POOL PHOTO
 Mynd: EPA-EFE - AP
Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels og tilvonandi forsætisráðherra, segir að bíða verði með að innlima svæði Palestínumanna á Vesturbakkanum þar til tökum hafi verið náð á COVID-19 farsóttinni.

Benjamín Netanyahu forsætisráðherra og stjórn hans hafa lýst yfir vilja sínum til að hefja innlimunarferlið á miðvikudaginn kemur, 1. júlí. Meðal svæða sem Ísraelsmenn hyggjast leggja undir sig eru landtökubyggðir, sem eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum.

Kórónuveiran dreifist hratt um Ísrael um þessar mundir, þar sem nokkur hundruð smit greinast á hverjum degi. Sömu sögu er að segja á Vesturbakkanum.

Benny Gantz sagði í dag á fundi með félögum í flokki hans, Bláhvíta bandalaginu, að allt sem ekki tengdist farsóttinni með beinum hætti yrði að bíða að sinni. Starfsfólk hans staðfesti síðar að hann ætti við að baráttan við COVID-19 ætti að hafa forgang.

Netanyahu forsætisráðherra hefur enn ekki tjáð sig um yfirlýsingu Gantz. Hann getur knúið fram innlimunina með því að einfaldur meirihluti á Knesset, ísraelska þinginu, samþykki hana. Í ríkisstjórninni getur Gantz beitt neitunarvaldi.

Innlimunin er hluti af áætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um stofnun Palestínuríkis. Palestínumenn hafa hafnað henni eindregið. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, tilkynnti í vetur að til stæði að rjúfa öll tengsl við Bandaríkin vegna tillagna hans um lausn á deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna.