Hægt að fá stafræn ökuskírteini síðar í vikunni

29.06.2020 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Tomáš Hustoles - Burst
Snjallsíminn er að taka við af kortaveskinu og í vikunni verður stigið stórt skref þegar stafræn ökuskírteini koma til sögunnar. Þau birtast á símaskjánum með skýrri andlitsmynd og nýtast um leið sem persónuskilríki, meðal annars í Vínbúðum. Markaðsstjóri hjá Stafrænu Íslandi segir flesta með snjallsímann á sér og engin afsökun lengur að hafa gleymt skilríkjum heima.

„Fallega bleikt á litinn“

Hægt verður að sækja skírteinið í gegnum vefinn island.is. Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands, segir að skírteinið fari í eins konar stafrænt veski sem eru í snjallsímum og birtist þar sem kort með tveimur hliðum.

„Það lítur úr alveg eins og skírteinið í dag. Það er fallega bleikt á litinn með mynd af þér og þeim upplýsingum sem þarf til að geta sýnt fram á að þú hafir ákveðin ökuréttindi. Þarna sækjum við [myndirnar] beint í gagnagrunninn hjá lögreglunni þannig að þau skírteini sem eru orðin mjög lífsreynd þau öðlast nýtt líf í síma þeirra sem kjósa að fá sér þetta í síma,“ segir Vigdís.

Veskisapp nauðsynlegt í Android

Plastskírteini verða áfram gefin út og í fullu gildi. Stafræna skírteinið er bæði fyrir iPhone og Android-síma en mælt er með því að þeir sem eru með Android sæki sér veskisapp áður en ökuskírteinið er sótt. Slíkt app er yfirleitt innbyggt í iPhone.

Margir eru farnir að borga fyrir vörur og þjónustu með greiðslulausnum í farsíma og hreinlega hættir að ganga með kortaveski. Það getur valdið því að fólk er án ökuskírteinis og gildra persónuskilríkja þegar þörf er á slíku.

„Það hafa komið upp þónokkur dæmi og við höfum heyrt ef því og þá er þarna komin einföld lausn. Við skiljum víst aldrei símann við okkur í dag. Maður snýr við eftir marga klukkutíma ferð til að sækja síma þegar þú hefðir kannski sleppt veskinu. En þetta hefur svo sannarlega komið fyrir og nú er engin afsökun,“ segir Vigdís.

Endurnýja þarf „forn“ skírteini vilji menn stafræn

Stafrænt ökuskírteini uppfyllir ekki kröfur Evróputilskipunar og gildir því aðeins innanlands til að byrja með. Það kostar ekkert að bæta því við sig en þeir sem eru með gömul ökuskírteini úr pappír, gefin út fyrir árið 1998, þurfa að fara til sýslumanns og endurnýja ökuskírteini vilji þeir fá stafræna útgáfu. Stefnt er að því að opna fyrir stafrænu ökuskírteinin á island.is síðar í vikunni.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi