Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grenjavinnsla seinna en vanalega

29.06.2020 - 17:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Aðsend mynd
Grenjaskyttur eru farnar að ganga á greni. Gotin eru víða 2-3 vikum seinna en vanalega. Það er mikið um gelddýr við Öxarfjörð en frjósemi er óvenju mikil í Þingeyjarsveit.

Grenjavinnsla er nú komin á fullt og við Öxarfjörð er mun minna af yrðlingum en vanalega. Halldór Svanur Olgeirsson, grenjaskytta í gamla Öxarfjarðarhreppi lauk yfirferð sinni í gær en hann kíkir að jafnaði í um 50-70 holur eða greni; „Það hefur bara gengið vel, það er fljótgert að fara yfir þetta, dýrin virðast ekki hafa parast mikið í vetur, það hefur til dæmis aldrei skeð áður á mínu svæði að það er bara í einu greni“ segir hann.

Mikið um gelddýr

Það sé hins vegar mikið af gelddýrum á vappinu og ómögulegt sé að segja til um ástæðu þess að dýrin hafi ekki parast. Þá hafi menn komið á greni þar sem hvolpar hafi legið dauðir fyrir utan, sem sé mjög óvenjulegt. Þegar slíkt gerist sé yfirleitt eitthvað að grenjunum. Það sé nóg æti svo tíðarfarið gæti verið ástæðan. Veður hafi verið snælduvitlaust í allan vetur, og blásið úr öllum áttum. Því geti verið bleyta inni í grenjunum þar sem þau eru mörg nýkomin undan snjó.

Gotin allt að þremur vikum seinna

Samkvæmt Jóni Númasyni, grenjaskyttu í Fljótunum er mun minna í grenjum þar en vanalega, það sé þó of snemmt að segja til um það, þar sem grenin séu nýkomin undan snjó gjóti dýrin úti og færi sig síðan inn í grenin. Hann býst því við að þurfa að fara tvær ferðir á grenin í sumar en þau eru um 130 talsins. Það sé mikil vinna en drónar spari sporin og auðveldi fyrir. Með þeim sé hægt að skoða umgang við grenin úr bílsætinu.

Mikil frjósemi við Vaðlaheiði

Í Skagafirði eru gotin um tveimur vikum seinna á ferðinni en vanalega. Grenjaskyttur þurftu frá að hverfa þar sem yrðlingarnir voru ennþá of litlir til að koma út úr grenjunum. Sömu sögu er að segja frá Austurlandi en þar eru gotin allt að þremur vikum á eftir áætlun, þar er grenjavinnslan því rétt að byrja en í fljótu bragði virðist frjósemi svipuð og áður. 
Grenjaskytta á mörkum Þingeyjarsveitar og Grýtubakkahrepps segir gotin þar líka seinna á ferðinni. Frjósemin sé hins vegar óvenju mikil. Í grenjum í Vaðlaheiði hafi fundist allt upp í 10 yrðlingar en meðalgot gefur að jafnaði fimm.
 

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV