Fréttir 19:00: Hópsýking setur strik í reikninginn

29.06.2020 - 18:48
Ekki verður slakað á fjöldatakmörkunum 13. júlí eins og til stóð vegna hópsýkingarinnar sem er komin upp. Farþegar sem koma frá hááhættusvæðum gætu þurft að fara í sóttkví til viðbótar við skimun á landamærunum.

Vegagerðin hefur ákveðið að lækka hámarkshraða alls staðar þar sem nýtt malbik er lagt vegna banaslyss á Kjalarnesi í gær. Vegkaflinn verður malbikaður á ný. 

Skuldbindingar Icelandair við lánardrottna nema rúmlega 80 milljörðum króna, handbært fé félagsins er fjórðungur af þeirri upphæð. Forstjóri félagsins er bjartsýnn á að samningar takist við lánardrottna á næstu vikum.

Kórónuveirusmitum fjölgar á ógnarhraða í Brasilíu og farsóttin er í hröðum vexti þar. Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segir fjarri að heimsfaraldurinn sé í rénun. 

Landsvirkjun réð til sín prest til að kveða niður draug á fyrirhuguðu virkjanasvæði fyrirtækisins. Á sama stað miðar hönnun að því að vernda álfabyggð. 

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi