Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fjörutíu ár frá fyrsta kjöri Vigdísar Finnbogadóttur

29.06.2020 - 20:19
Mynd: RÚV / RÚV
Í dag eru fjörutíu ár síðan Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti Íslands. Vigdís var fyrst kvenna í heiminum til að verða kjörin forseti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún gegndi embætti forseta í fjögur kjörtímabil, til ársins 1996.  

Fjöldi fólks safnaðist saman við heimili Vigdísar að Aragötu 2 til að hylla hana þegar úrslitin lágu fyrir snemma morguns 30. júní. Síðdegis var svo efnt til samkomu við heimili hennar. Vigdís stóð úti á svölum ásamt Þór Magnússyni þjóðminjaverði, sem tók til máls:

Hér gerðist það að blaði var flett í sögunni. Er ein kona gekk fram fyrir skjöldu, boðberi hins nýja tíma, hins nýja hugsunarháttar. Og vildi sýna í verki að konan skyldi ekki standa karlmanninum að baki þegar við stórræði væri að takast. Þjóðin má vera stolt af þér og nú hefur þú einnig lyft merkinu til fordæmis fyrir aðrar þjóðir. 

Vigdís las svo upp úr bókinni Spámaðurinn í þýðingu Gunnars Dal. Bókina hafði hún fengið að gjöf frá aðdáanda í tilefni dagsins: 

„Þá sagði ríkur maður: Talaðu við okkur um gjafir. Og hann svaraði: Að gefa af eigum sínum er lítil gjöf, hin sanna gjöf er að gefa af sjálfum sér. Því að hvað eru eigur þínar annað en hlutir, sem þú geymir og gætir af ótta við að þarfnast þeirra á morgun? Og hvað er óttinn við skortinn annað en skortur? Er ekki ótti við þorsta, þegar brunnur þinn er fullur, sá þorsti sem ekkert fær svalað? 

Til eru þeir, sem gefa lítið af nægtum sínum, og þeir gefa til að láta þakka sér, og hin dulda ósk þeirra eitrar gjöfina. Til eru þeir sem eiga lítið að gefa og gefa það allt. Þetta eru þeir, sem trúa á lífið og nægtir lífsins, og þeirra sjóður verður aldrei tómur.“ 

Þetta vildi ég hafa að einkunnarorðum okkar í dag. Megi Ísland lifa um aldir. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV