Fimm daga ferð um náttúruperlur Norðurlands

Mynd með færslu
 Mynd: Goðafoss

Fimm daga ferð um náttúruperlur Norðurlands

29.06.2020 - 15:28
Í þessari viku förum við í ferð um Norðurland og tökum ferjuna út í Hrísey. Það er margt skemmtilegt að gera og skoða á leiðinni: fossar, sundlaugar, söfn og aðrar náttúruperlur.

RÚV núll tekur saman hugmyndir að nokkrum skemmtilegum ferðum í sumar fyrir fjölskyldur eða vini undir nafninu Pakkaferð RÚV núll. Í ferðinni sem hér er lýst er gert ráð fyrir fimm dögum á fallegum stöðum. Að sjálfsögðu er hægt að hafa ferðina styttri eða lengri, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hér er gert ráð fyrir að lagt sé af stað frá höfuðborgarsvæðinu en að sjálfsögðu er hægt að leggja í þetta ferðalag hvaðan sem er og nýta hugmyndirnar til að skapa hið fullkomna ferðalag.

Áður en við skellum okkur upp í bílinn er gott að vera kominn með góðan lagalista, hér eru nokkur tilvalin ferðalög:

Dagur 1
Við leggjum snemma af stað, förum um Hvalfjarðargöngin og í gegnum Borgarnes. Í dag keyrum við samtals 473 km, frá Reykjavík til Siglufjarðar. Fyrsta stopp er Borgarvirki, þangað er 141 km akstur frá Borgarnesi. Þar er gott að teygja úr sér, fá sér nesti og rölta svo um klettaborgina en hún er alveg ótrúlega merkileg sjón. 

Næst er það Hvítserkur sem er við Vatnsnesveg. Bjargið er stutt frá Borgarvirki en þó er mikilvægt að keyra varlega. Hvítserkur er sérkennilegur brimsorfinn klettur sem er gaman að skoða, einnig eru miklar líkur á því að sjá seli þar í kring. Eftir að hafa skoðað þessa náttúruperlu er keyrt til baka inn á þjóðveg 1. Við keyrum í gegnum Blönduós, Varmahlíð og stoppum í Glaumbæ. Í Glaumbæ er gaman að stoppa og skoða byggðasafnið þar. Það eru 110 km eftir í dag og því um að gera að teygja vel úr sér. 

Við keyrum í gegnum Sauðárkrók og brunum á Hofsós, þar er frábær sundlaug og góðir veitingastaðir. Sundlaugin sæmir hvaða Instagram-aðgangi sem er enda hönnun hennar einstök. Eftir góða sundferð er haldið áfram í fallega bæinn, Siglufjörð. Það eru 60,3 km þangað. Þar gistum við í kvöld og njótum þess sem bærinn hefur upp á að bjóða.

Mynd með færslu
 Mynd: Hofsós
Sundlaugin á Hofsós

Dagur 2
Við fáum okkur góðan morgunmat á Siglufirði og höldum svo af stað. Í dag keyrum við tæplega 85 km og endum á Akureyri. Við stoppum á Ólafsfirði og skoðum bæinn en keyrum svo yfir til Dalvíkur. Höldum svo áfram á veginum góða, næsta stopp er Árskógssandur, þar er hægt að fara í bjórböð, en við tökum þó fram að bjórinn í baðinu er ódrykkjarhæfur. Fyrir þá sem njóta þess að vera á sjó er tilvalið að hoppa í Hríseyjarferjuna Sævar, sem fer nokkrar ferðir yfir daginn.

Hrísey er önnur stærsta eyjan við Ísland á eftir Heimaey og bærinn fallegur. Seinnipartinn komum við svo aftur á Árskógssand og keyrum Ólafsfjarðarveg, fram hjá Hjalteyri og Möðruvöllum og brunum á Akureyri þar sem við gistum í nótt.

Þar er gott tjaldsvæði og önnur gisting. Brynjuís er ómissandi og rennibrautirnar í sundlauginni óviðjafnanlegar, göngugatan rómantísk og gestir geta valið úr fjölda fínna veitingastaða. Það er svo ekki alvöru Akureyrarferð nema að fara tröppurnar upp að kirkjunni eins hratt og mögulegt er. 
 

Dagur 3
Við kveðjum Akureyri, næsta stopp er Goðafoss. Virðum hann fyrir okkur og náum einni góðri mynd með fossinn í bakgrunni. Því næst keyrum við til Húsavíkur. Það er síðasta stoppið í dag. Við erum í fríi svo við ætlum að reyna keyra sem minnst í dag og taka því rólega.

Á Húsavík er hægt að gera margt skemmtilegt eins og að fara í sjóböðin og hvalaskoðunarferðir. Einnig er mikið af góðum veitingastöðum þar. Kvikmynd Wills Ferrells, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, var tekin þar upp að stórum hluta og við skorum á þig að læra Ja Ja Ding Dong úr kvikmyndinni til að syngja með heimamönnum á Húsavík. 

Mynd með færslu
 Mynd: Húsavík
Húsavík

Dagur 4
Í dag keyrum við 207 km og endum á Mývatni. Við keyrum fram hjá Tjörneshreppi og fyrsta stopp dagsins er svo Ásbyrgi sem er ein af merkustu náttúruperlum Íslands. Þar gæti verið gaman að fara í lautarferð, hlusta á fuglasöng, æfa bergmálið og njóta. Það borgar sig ekki að flýta sér of mikið í gegnum Ásbyrgi, þvílík er fegurðin.  

Við keyrum svo skamma stund og göngum í Hljóðakletta í Vatnajökulsþjóðgarði. Gangan þar er algjörlega ómissandi og fegurðin einstök.  

Næsta stopp er Dettifoss en það er um það bil 40 mínútna akstur þangað frá Hljóðaklettum. Dettifoss er aflmesti foss Íslands, nálægt honum eru tveir miklir fossar, Hafragilsfoss og Selfoss. Eftir að hafa séð nóg af fossum er stefnan tekin á Dimmuborgir sem er ríflega klukkustundar akstur. Á leiðinni er keyrt fram hjá hverasvæðinu í Námaskarði. Í Dimmuborgum er falleg gönguleið þar sem þið eruð umvafinn hrauni. Hellirinn Kirkja er líka hrein og klár uppspretta fyrir ímyndunaraflið. Það eru staðir eins og Dimmuborgir sem eru uppspetta sagna af álfum og huldufólki, svo mikið er víst. 

Eftir góða göngu er brunað á Mývatn þar sem við gistum í nótt, það eru ekki nema átta km þangað. Eftir langan dag er tilvalið að fara í jarðböðin og njóta þess sem Mývatnssveit hefur upp á að bjóða í mat, drykk og afslöppun. 

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Ásbyrgi

Dagur 5
Þá er síðasti dagurinn runnin upp í þessu ferðalagi. Það er löng keyrsla í dag eða tæplega sex tíma akstur aftur til höfuðborgarinnar. Rétt hjá Mývatni eru Skútustaðagígar sem er virkilega gaman að sjá.

Á heimleiðinni er líka tilvalið að stoppa á þeim stöðum sem var sleppt hér að ofan og lengja þannig daginn eilítið. Þetta snýst jú ekki um áfangastaðinn, heldur ferðalagið. Er það ekki?

Mynd með færslu
 Mynd: Skútustaðagígar
Skútustaðagígar

RÚV núll setur fram tillögur að skemmtilegum ferðalögum í sumar.

Tengdar fréttir

Snæfellsnes og Flatey á Breiðafirði á fjórum dögum

Í návist jökla, fossa og heitra lauga á fjórum dögum

Fimm daga ferð um Vestfirði og ótrúleg náttúrufegurð