Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enn fjölgar smituðum vestra

29.06.2020 - 03:13
epa08392045 Dr. Anthony Fauci makes remarks as US President Donald J. Trump and Louisiana Governor John Bel Edwards looks on in the Oval Office, Washington, DC, USA, 29 April 2020.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA
Á hverjum degi greinast nú fimm þúsund ný kórónuveirusmit í Texas. Þar til nýlega var meðaltalið um tvö þúsund á dag.

Viðlíka aukning á smitum hefur orðið í nokkrum ríkjum í suður- og vesturhluta Bandaríkjanna eftir að slakað var samkomubanni. Skráð tilfelli kórónuveirusmita þar í landi hafa nú farið yfir tvær og hálfa milljón. Ríflega 125 þúsund hafa látist. Mesta fjölgunin er meðal ungs fólks á aldrinum 18 til 34 ára.

Þessi nýtilkomni kúfur hefur orðið til þess að yfirvöld í Texas, Florida og öðrum ríkjum hafa ákveðið að herða reglur að nýju. Samtímis er varað við því að fljótlega geti komið að því að sjúkrahús ráði ekki við fjölgun smitaðra. Í Texas leggjast allt að fimmþúsund inn á sjúkrahús daglega.

Mike Pence varaforseti hefur lofað yfirvöldum í Texas að þeim verði útvegaður skimunarbúnaður svo lengi sem á þyrfti að halda. Varaforsetinn hvatti íbúa ríkisins jafnframt til að gæta varúðar og ganga með grímur til að sporna við útbreiðslu veirunnar.

Mótmæli brutust út í borginni Austin í Texas vegna kröfu um að almenningur gengi með andlitsgrímur við ákveðnar aðstæður. Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings segir löngu orðið tímabært að skylda almenning til að ganga með grímur.

Yfirvöld í Texas hafa fyrirskipað lokun kráa og takmörkun á aðgangi að veitingahúsum víða um ríkið. Í Florida hefur svipuðum meðulum verið beitt. Dr. Ant­hony Fauci, aðalráðgjafi Bandaríkjastjórnar gegn smitsjúkdómum kveðst geta sætt sig við bóluefni sem hefði 70 til 75% virkni gegn veirunni.

Það lága hlutfall ásamt yfirlýstri tregðu fjölda Bandaríkjanna við að láta bólusetja dregur úr möguleikum við að hemja faraldurinn. Á næstu mánuðum hefjast tilraunir með þrjár gerðir bóluefna gegn veirunni.

Opinberar tölur benda til að yfir tíu milljónir hafi smitast af Covid-19 og meira en hálf milljón látist af völdum sjúkdómsins. Helmingur smitaðra er í Evrópu og Bandaríkjunum en tilfellum fjölgar enn í Suður-Ameríku. Ekki er búist við að sjúkdómurinn nái hámarki í suðurhluta Asíu og í Afríku fyrr en undir júlílok.