Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eiga að forðast mannmarga staði eftir heimkomu

29.06.2020 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Íslendingar sem koma til landsins, sérstaklega þeir sem koma frá löndum þar sem útbreiðsla kórónuveirunnar er mikil, eiga að forðast mannmarga staði í tvær vikur, virða tveggja metra regluna, forðast viðkvæmt fólk og gæta hreinlætis og sóttvarna. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi Almannavarna. Hann biður fólk að fara að þessum tilmælum. Þá er óvíst hvenær unnt verður að slaka á 500 manna samkomubanni og rýmka opnunartíma skemmtistaða og kráa.

Þórólfur sagði jafnframt á fundinum að frá því skimun á landamærum hófst 15. júní hafi rúmlega 17.000 farþegar komið til landsins. Þá hafa 12 þúsund sýni verið tekin og fjórir reyndust vera með virkt smit. 

Um sex hundruð sýni hafa verið rannsökuð í tengslum við hópsýkingu sem kom upp á höfuðborgarsvæðinu nýverið og rakin er til ungrar konu sem kom hingað frá Bandaríkjunum á þjóðhátíðardaginn. Þrír hafa smitast í framhaldi af því í veislum og á knattspyrnuleik. Um 400 manns eru í sóttkví vegna þessarar sýkingar.

Þórólfur tók fram að hópsýkingin væri enginn heimsendir. Hann telur að aðgerðir sem gripið hefur verið til skili árangri. Þá bað hann alla Íslendinga sem koma frá útlöndum, einkum þá sem koma frá löndum þar sem útbreiðsla veirunnar er mikil að hafa sérstaka aðgát næsta hálfa mánuðinn eftir komuna til landsins. Fólk er beðið að forðast mannmarga staði í tvær vikur, virða tveggja metra reglu, forðast viðkvæma hópa og iðka sóttvarnir.

Sóttvarnalæknir sagði einnig að ekki væri fyrirséð hvenær unnt verði að slaka á 500 manna samkomubanni. Þá væri heldur ekki fyrirséð hvenær unnt verður að rýmka opnunartíma knæpa og skemmtistaða. Aukin heldur væri ekki hægt að auka fjölda þeirra erlendra ferðamanna sem koma mega hingað til lands.