Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Boltastrákurinn fær borgara

Mynd: Kikkó / RÚV

Boltastrákurinn fær borgara

29.06.2020 - 22:05
„Þetta var bara mjög flott frammistaða hjá okkar drengjum,“ segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R., eftir 4-1 sigur sinna manna á FH í Víkinni í kvöld. Sigurinn var þeirra fyrsti á tímabilinu.

„Við vorum kraftmiklir og það var ekki að sjá að við hefðum spilað 120 mínútur fyrir nokkrum dögum síðan. Við komum FH-ingunum á óvart held ég með nýju leikkerfi, við fundum svæði út um allan völl - fyrri hálfleikurinn var nánast fullkominn,“ segir Arnar.

Víkingur leiddi 3-0 í leikhléinu en þriðja markið skoraði Óttar Magnús Karlsson úr aukaspyrnu við endalínu sem hann tók snöggt á meðan FH-ingar kvörtuðu við Pétur Guðmundsson, dómara leiksins. Boltastrákur Víkinga var fljótur að hugsa og kom boltanum til Óttars.

„Mér fannst þetta bara geggjað. Boltastrákurinn var mjög fljótur að hugsa, sendir á Óttar sem sér að markið er autt og sendir hann í markið. Ég myndi kvarta sem FH-ingur en frá mér séð var þetta hrikalega flott mark og vel að verki staðið - bæði hjá boltadrengnum og Óttari.“ segir Arnar en verður boltastrákurinn sem um ræðir eitthvað verðlaunaður af Víkingum fyrir stoðsendinguna?

„Já, hann fær einhvern hamborgara hjá okkur,“ segir Arnar og hlær við.

Ólafur ekki séð svona áður á Íslandi

„Það var skrípamark þarna, þriðja markið, og það var erfitt að fara með það inn í hálfleikinn,“ segir Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, sem man ekki til þess að hafa séð eins mark á Íslandi.

„Frábær dómgæsla ef allt hefur verið þannig að boltinn hafi verið kyrr og Pétur [Guðmundsson, dómari leiksins] hafi ekki verið að tala við leikmenn FH. Ég hef kallað eftir því lengi að leikurinn fái að fljóta og klókir leikmenn fái að taka aukaspyrnu hratt. Ég hef ekki séð það gerast fyrr en í kvöld en það horfir líka þannig við mér að Pétur hafi verið að tala við Gunnar þarna. Þannig að ég var ósáttur við það mark en þegar þú ert í forsvari fyrir lið sem sýnir ekki betri frammistöðu en við í kvöld gæti maður slegið ryki í augun á einhverjum með því að tala um þetta mark og dómgæsluna,“

„Þetta var skrípamark en frammistaða okkar slök í kvöld.“ segir Ólafur.

Viðtalið við Arnar má sjá í spilaranum að ofan en við Ólaf hér að neðan.

Mynd: Mummi Lú / RÚV
Viðtal við Ólaf Kristjánsson, þjálfara FH.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Óttar Magnús með þrennu í sigri Víkings