Ber saman aðgerðir Taívans og Íslands í faraldrinum

29.06.2020 - 23:42
Innlent · COVID-19 · Taiwan
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Fjallað er um aðgerðir tveggja ríkja, Taívans og Íslands, í pistli í veftímaritinu The Conversation í dag. Höfundur pistilsins segir aðgerðir ríkjanna í COVID-faraldrinum hafi verið til fyrirmyndar en þær eru um margt sambærilegar.

Greinarhöfundur segir til að mynda að ríkin hafi snemma í faraldrinum áttað sig á mikilvægi þess að virkja margvíslegar stofnanir til þess að sporna gegn honum.

Í Taívan búa tæpar 24 milljónir manna en þrátt fyrir það hafa aðeins sjö látist úr COVID-19. Tilfelli þar í landi eru alls 447. Taívan er eyja, rétt eins og Ísland, og hófst landamæraeftirlit vegna faraldursins strax í lok janúar. Um svipað leyti virkjuðu yfirvöld þar í landi ýmsar stofnanir og einkaaðila til þess að hindra útbreiðslu veirunnar. 

Taívan getur nú rannsakað í kringum 5.800 sýni dag hvern, þökk sé umfangsmiklu samstarfsneti skimunarstöðva og rannsóknarstofnana. Taívanir hafa jafnframt lagt mikið upp úr stafrænum lausnum, til dæmis hafa þeir gefið út smáforrit þar sem nálgast má upplýsingar um birgðastöðu andlitsgríma. 

Í greininni segir að góðan árangur Íslands í glímunni við COVID-19 megi meðal annars rekja til þess að ríkið lýsti yfir neyðarstigi Almannavarna snemma í faraldrinum. Viðbragðsáætlun var virkjuð, stórir hópar fólks skimaðir og komufarþegar settir í tveggja vikna sóttkví. 

„Samvinna og samhæfing milli ráðuneyta og stofnana á Íslandi gegndi lykilhlutverki við framkvæmd sóttkvíar og smitrakningar,“ segir í pistlinum.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi