Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Banaslysið á Kjalarnesi: „Vegagerðin er alltaf ábyrg“

29.06.2020 - 19:17
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV - Guðmundur Bergkvist
Vegkaflinn á Kjalarnesi þar sem tveir létust í slysi í gær verður malbikaður aftur. Nýlögð klæðning uppfyllti ekki kröfur Vegagerðarinnar. Forstjórinn segir stofnunina axla ábyrgð.

Ökumaður bifhjóls og farþegi létust eftir árekstur við húsbíl á Kjalarnesi í gær. Ný klæðning var lögð á þennan vegkafla á fimmtudag, en í ljós kom að efnið í malbikinu uppfyllti ekki skilmála í útboði Vegagerðarinnar. Sjúkrabíll sem var á leið á slysstað í gær fór einnig út af vegna aðstæðna, en rannsókn lögreglu beinist meðal annars að því hversu hált malbikið var. 

„Hálkumælingar sýna óviðunandi ástand. Við bregðumst við með því að leggja yfir kaflann alveg malbik upp á nýtt, þannig það verður gert við fyrsta hentugleika eftir því sem veðuraðstæður leyfa. Í millitíðinni þá beitum við hálkuvörnum og tökum niður hraða,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Kaflanum var lokað um tíma í dag vegna framhaldsrannsóknar lögreglu og síðdegis var unnið að því að sandbera veginn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir - RÚV
Frá vettvangi slyssins í gær.

Framvegis hálkuvarið og dregið úr hraða

Tveir verktakar unnu verkið fyrir Vegagerðina, annars vegar við að leggja klæðninguna og hins vegar að hafa eftirlit með verkinu. Ákveðið var að setja upp skilti sem varaði við hálku, en ekki að draga úr hámarkshraða. Bergþóra segir að framvegis eigi að gera hvort tveggja og fleiri nýmalbikaðir kaflar verða skoðaðir.

„Í þessu tilfelli erum við með aðkeypt eftirlit og okkur hefur bara gefist það ágætlega.“

Er samt ekki Vegagerðin sjálf ábyrg þrátt fyrir að verkefninu sé útvistað til verktaka?

„Jú, Vegagerðin er alltaf ábyrg og við högum okkur samkvæmt því.“

„Alltaf gott að vera vitur eftir á“

Bifhjólasamtökin Sniglarnir hafa boðað mótmæli á morgun og segja að lengi hafi verið varað við hættu sem skapast við aðstæður sem þessar.

Hefði átt að bregðast við fyrr?

„Það er alltaf gott að vera vitur eftir á. Þarna er fyrir fram ákveðið verklag sem hefur í sjálfu sér staðið lengi. Við erum að fara ofan í allt því tengdu núna, en líka efnið frá verktakanum og teljum að þetta efni hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem við gerðum í þessu útboði,“ segir Bergþóra.

Einnig er til skoðunar hvort verktakar hafi ekki aðgang að sama efni og áður vegna kórónuveirufaraldursins og erfiðleika á markaði.

„Hvort þetta er eitthvað því tengt get ég bara ekki svarað eins og er,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.