Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Aðstæður sem líkjast meira mansali en ráðningarsambandi

29.06.2020 - 08:58
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Efling aðstoðar í auknum mæli félagsmenn sem eiga húsnæði sitt undir vinnuveitanda. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að fólk sem kemur hingað til lands sé oft dregið inn í aðstæður, „sem ég myndi treysta mér til að segja eiga meira skylt við mansal en eðlilegt ráðningarsamband,“ sagði Viðar í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Viðar segir að fjölmiðlar hafi fjallað mjög gagnrýnið um aðbúnað erlends verkafólks hér á landi. Til að mynda hafi Stundin fjallað um húsið við Bræðraborgarstíg, þar sem þrír létust í eldsvoða á fimmtudag. Þá var í fréttaskýringaþættinum Kveik fyrir tveimur árum fjallað um starfsmannaleigur. Í þeim þætti hafi verið fjallað um fyrirtæki sem „tengjast notkuninni á þessu húsnæði,“ segir Viðar. „Þannig að það hefur enginn skortur verið á því að raddir hafi heyrst um það þetta sé raunveruleikinn,“ segir Viðar. 

Efling hafi verið í harðri baráttu við að gæta réttinda sinna félagsmanna gagnvart starfsmannaleigum. Lengi vel hafi það aðallega verið vegna launa en síðustu tvö árin hafi félagið í auknum mæli tekið á aðbúnaði fólks. „Og vona almennt svívirðandi og lítilsvirðandi framkomu sem fólkið verður fyrir í tengslum við vinnuna og í samskiptum við sinn atvinnurekanda og það að fólk er dregið inn í aðstæður sem ég myndi treysta mér til að segja eiga meira skylt við mansal en eðlilegt ráðningarsamband. Það birtist í því að þarna er verið að tengja saman ráðningarsamkomulag einhvers konar og síðan það að hola fólki niður í fullkomlega ógeðslegu og óboðlegu húsnæði. Þetta er svo samnýtt þannig að starfsmaðurinn verður algjörlega berskjaldaður og varnarlaus gagnvart þessu. Hann getur ekki kvartað yfir launaþjófnaðinum vinnulega séð því þá er honum hótað að verða sparkað út úr húsnæðinu. Svo getur hann ekki kvartað yfir ástandinu á húsnæðinu því þá er honum hótað að honum verði sagt upp vinnunni,“ segir Viðar. 

Viðar segir að honum þyki forgangsröðun lögreglu og dómskerfis í málum sem þessum áhugaverð og bendir á að sérfræðingur í vinnustaðaeftirliti hafi verið dæmdur fyrir meiðyrði vegna orða sem hann lét falla um starfsmannaleigu. „Hér erum við búin að vera með tikkandi tímasprengju árum saman varðandi aðbúnað fólks. Ég bætist í þann hóp sem segir: þetta kemur ekki á óvart, því miður, að aðbúnaður hafi verið svona í þessu húsi en lögregla og dómskerfi bregðast ekki við því. Áherslan er frekar á að starfrækja frekar þennan umtalaða handtökubíl, sem er nýjasta framlag lögreglu og dómsmálaráðuneytisins í brotastarfsemi á vinnumarkaði og handtaka verkafólk og á sama tíma eru atvinnurekendur sem stunda, eru ábyrgir fyrir þessari starfsemi, eru gerendurnir í brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Þeir ganga frjálsir,“ segir Viðar.