Vilja 30.000 fermetra undir viðbragðsaðila 

Mynd með færslu
 Mynd: Höskuldur Kári Schram - RÚV
Framkvæmdasýsla ríkisins leitar nú að 30.000 fermetra lóð eða 26.000 fermetra húsnæði á höfuðborgarsvæðinu svo hægt verið að hýsa lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, embætti ríkislögreglustjóra, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslu, Tollgæslu, Neyðarlínu og Slysavarnafélagið Landsbjörg undir einu og sama þakinu.

Ríkiskaup auglýstu í Fréttablaðinu á laugardag eftir upplýsingum um mögulegar lóðir, staðsetningar, húsnæði eða tækifærum um samstarf á þessum vettvangi.

Framkvæmdasýslan, sem  stýrir verkefninu, hefur undanfarið ár unnið með fjármála- og dómsmálaráðuneyti að hugmyndum um sameiginlegt húsnæði fyrir alla helstu viðbragðsaðila landsins.

Í upphafi einskorðaðist verkefni við að finna hentugt húsnæði fyrir löggæsluaðila en verkefnið var síðan stækkað. Það gerir því nú ráð fyrir öllum viðbragðsaðilum á einum stað og var fyrr á þessu ári settur aukinn þungi  í verkefnið, enda hefur mikið mætt á viðbragðsaðilum það sem af er ári. 

Markmiðið er finna hagkvæma lausn til framtíðar á húsnæðismálum viðbragðsaðila, en talið er að með samlegðinni mætti auka samstarf og bæta nýtingu rýma. Eins muni nýtt húsnæði svara betur kröfum nútímans en það húsnæði sem viðbragðsaðilarnir hafa yfir að ráða í dag. 

„Þá er ljóst að á ögurstundu er mikill kostur að þeir aðilar sem vernda líf og eignir landsmanna séu staðsettir í sama húsnæðinu,“ að því er fram kemur í tilkynningunni.

Fréttin var uppfærð klukkan 13:28: Áður sagði að leitað væri að 30.000 fermetra lóð eða húsnæði. Hið rétta er að leitað er að 30.000 fermetra lóð eða 26.000 fermetra húsnæði. 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi