Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Um 300 Danir strandaglópar vegna kórónuveirunnar

28.06.2020 - 17:55
epa07528924 Passengers at the arrivals hall during a pilots strike at Copenhagen Airport in Kastrup, Denmark, 26 April 2019. Danish pilots of Scandinavian Airlines (SAS) have gone on strike after not reaching an agreement with their company on wages and working hours. The airline said it had to cancel some 673 flights affecting over 72,000 passengers.  EPA-EFE/Philip Davali DENMARK OUT
 Mynd: EPA - RÚV
Um 300 Danir eru enn strandaglópar víða um heim vegna kórónuveirufaraldursins og gengur erfiðlega að komast aftur heim til Danmerkur.

Danska ríkisútvarpið DR hefur þetta eftir borgaraþjónustu danska utanríkisráðuneytisins. 

Líkt og borgaraþjónusta íslenska utanríkisráðuneytisins, þá hefur sú danska reynt að aðstoða danska ríkisborgara sem voru erlendis er kórónuveirufaraldurinn reið yfir. 

Flestum hefur með tíð og tíma tekist að komast aftur heim, en líkt og áður sagði eru um 300 enn strandaglópar. Flestir þeirra eru á Indlandi, í Pakistan, Írak eða Kólumbíu.

DR segir ástæður þess að þeir hafi ekki enn komist heim ýmist vera samkomu- eða útgöngubann í löndunum sem þeir nú dvelja, auk þess sem flugsamgöngur hafa víða verið í lamasessi undanfarna mánuði.

Danska borgaraþjónustan segir um 150 Dani til viðbótar stadda víðs vegar í heiminum, en að flestir þeirra hafi líka tengsl við landið sem þeir dvelja í.