Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þjóðin sammála túlkun Guðna á embættinu

Mynd: RÚV / RÚV
Ekki er hægt að túlka niðurstöður forsetakosninganna í gær öðruvísi en svo að þjóðin sé sammála túlkun Guðna Th. Jóhannessonar á forsetaembættinu. Þetta sagði Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, í aukafréttatíma í Sjónvarpinu í hádeginu í dag.

Guðmundur segir sigur Guðna, sem hlaut rúm 92% atkvæða, hafi verið glæsilegan. Mótframbjóðandi hans Guðmundur Franklín Jónsson fékk tæp 8% atkvæða.

Guðni fékk um 39% atkvæða er hann bauð sig fram til forseta í fyrsta skipti árið 2016 og ekki sjálfgefið að þeir sem kusu hann ekki þá myndu gera það núna. Guðmundur segir að svo virðist sem Guðni hafi náð að sanna sig fyrir þessum kjósendum. „Það er ekki auðvelt að ná svona árangri. Þetta er mjög athyglisvert, bæði því kosningaþátttaka var jafn mikil og raun ber vitni“ og eins hafi verið lítið af auðum og ógildum seðlum.

Að mati Guðmundar er það bæði persónan og málefnin sem hafa áhrif á niðurstöðuna nú. Forsetakjör sé í raun persónukjör og því hefði niðurstaðan mögulega orðið önnur hefði mótframbjóðandinn verið annar eða þeir fleiri.

Spurður hvort þjóðin hafi hafnað pólitískri túlkun Guðmundar Franklíns á forsetaembættinu, sagði Guðmundur ekki hægt að túlka úrslitin öðru vísi en svo að þjóðin hafi stutt túlkun Guðna sem sagðist í þessum sama fréttatíma ætla að halda áfram á sömu braut. „Hann gefur það í skyn að þær aðstæður geti alveg komið upp að hann stigi inn á hið pólitíska svið, en hann ætlar sér ekki að gera það nema í algjörum undantekningartilfellum.“