Sýndu samstöðu á Austurvelli og við Bræðraborgarstíg

Sýndu samstöðu á Austurvelli og við Bræðraborgarstíg

28.06.2020 - 20:21

Höfundar

Hundruð komu saman við Austurvöll í dag til að heiðra minningu þeirra sem létu lífið í eldsvoða við Bræðraborgarstíg í vikunni. Aðstandendur fundarins krefjast þess að húsnæðismál innflytjenda verði bætt.

Fólk kom saman á Austurvelli um hádegisbil. Sumir báru mótmælaspjöld og slökkviðlið höfuðborgarsvæðisins og lögreglan mætti til að sýna málefninu stuðning. Hópurinn gekk svo að horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs þar sem blóm voru lögð á gangstéttina til minningar um þá þrjá sem létust og til stuðnings þeirra sem enn liggja á sjúkrahúsi. Andrúmsloftið var mjög tilfinningaþrungið og ljóst að eldsvoðinn hefur haft mikil áhrif á samfélagið. 

„Þetta er búið að vera sjáanlegt svo lengi þetta ástand á þessu húsnæði og það eru margir íbúar búnir að reyna að vekja athygli á því og reyna að hafa áhrif á það að það sé eitthvað gert í svona tilfellum. Það kom mörgum ekki á óvart að eitthvað svona skyldi gerast í þessu tilfelli.“ segir Kristín María Sigþórsdóttir, íbúi í Vesturbæ.

Eldsvoðinn hefur vakið umræðu um slæman aðbúnað verkafólks af erlendum uppruna. 

„Atvinnumarkaðurinn er misnotaður og margt ólöglegt er aðhafst þar. Og þá einkum gagnvart innflytjendum. Af því ósjaldan þá tölum við ekki íslensku og heldur ekki ensku. Pólska samfélagið hér getur hrósað happi því við erum mörg. En hér eru mörg þjóðarbrot sem ekki eru jafn fjölmenn og Pólverjar. Og þau geta hvergi leitað aðstoðar.“ segir Kaja Balejko, ljósmyndari og einn skipuleggjanda fundarins.

Kaja segir að aðgerðir til að bæta stöðu innflytjenda þurfi hvorki að vera flóknar né kostnaðarsamar.

„Við ættum að láta alla sem sækja um kennitölu hér fá pdf skjal í tölvupósti á fimm helstu tungumálumnum sem töluð eru af erlendu starfsfólki sem hingað kemur með lista yfir helstu stofnanir, ekki aðeins ríkisstofnanir eða verkalýðsfélög heldur einnig hjálparsamtök sem geta veitt aðstoð þegar þau vira ekki hvert á að snúa sér.“ segir Kaja. 

Borgarstjóri segir að eldsvoðinn sé sterkt ákall um að tryggja að svona lagað endurtaki sig ekki. 

Hvernig var með leyfismál í þessu húsi, var það á undanþágu eða eitthvað slíkt?

„Það þarf auðvitað að fara yfir það. Við vitum af því að slökkviliðið hefur oft bent á það að skyldur slökkviliðs og eldvarnaeftirlits er fyrst og fremst við atvinnuhúsnæði, þegar kemur að íbúðarhúsnæði þá getur í rauninni eigandi meinað slökkviliði og eldvarnareftirliti inngöngu og þetta er ein af þessum spurningum sem við verðum að svara.“

Tengdar fréttir

Innlent

Ekki á að þurfa bruna og dauðsföll til að fá viðbrögð

Innlent

Minnast þeirra sem létust í brunanum á Bræðraborgarstíg

Innlent

Þrír látnir eftir brunann á Bræðraborgarstíg