Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Starfsmenn lýsi ekki yfir stuðningi með prófílmyndum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Athugasemd barst yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis í gær vegna starfsmanns kjörstjórnar Fljótsdalshéraðs sem hafði sett ramma um prófílmynd sína á Facebook þar sem lýst var stuðningi við annan forsetaframbjóðendanna.

Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

„Þetta var réttmæt athugasemd og það var brugðist við henni,“ segir hann. „Þetta var smávægileg yfirsjón sem hafði engin áhrif á úrslit kosninganna.“ 

Guðni Th. Jóhannesson var endurkjörinn forseti með rúmum 92% atkvæða í kosningunum, en mótframbjóðandi hans Guðmundur Franklín Jónsson fékk tæp 8% atkvæða.

Yfirkjörstjórn brást fljótt við og málið, sem engir eftirmálar verða af, telst leyst. Lögin eru að mati Gests hins vegar ekki nógu skýr hvað samfélagsmiðla varðar og hvort slík birting teljist áróður eða yfirlýsing.

Hann segir yfirkjörstjórn þó ætla að reyna að sjá til þess að þetta endurtaki sig ekki, enda séu engar ástæður fyrir starfsmenn kjörstjórna að láta draga heilindi sín í efa.