Nýtt smit með sömu tenginguna - samtals fjögur smit

28.06.2020 - 18:40
Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson / RÚV
Fjórir með sömu tengingu hafa nú greinst með kórónuveirusmit. Það fjórða greindist í dag. Það tengist Fylki en fyrir eru tveir knattspyrnumenn smitaðir í Breiðabliki og Stjörnunni.Tæplega fjögur hundruð manns eru í sóttkví þeirra á meðal hópar á vinnustöðum, í íþróttum og í unglingavinnunni. Aukamannskapur var kallaður í smitrakningateymið sem vinnur nú fram á nótt. 

Sá síðasti fór heim klukkan hálfþrjú

Eftir að hafa verið bara þrjú eftir í smitrakningarteyminu fór allt á fullt aftur á fimmtudaginn þegar í ljós kom að knattspyrnukona greindist með smit eftir að hafa viku áður greinst neikvæð. Um helgina hafa sex til tíu manns verið að störfum í nýrri bækistöð teymisins við Katrínartún í Reykjavík auk fleiri sem liðsinna teyminu. Síðasti starfsmaðurinn fór út úr húsi klukkan hálfþrjú í nótt. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV

„Ef mér telst rétt til þá höfum við þurft að ná til í kringum 430 manns og þar af þurfa í kringum 360, 370 líklegast að fara í sóttkví. Ég þori ekki alveg að fara með hvað við erum búin að ná til margra en við erum svona rúmlega hálfnuð,“ segir Ævar Pálmi Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður smitrakningateymisins. 

Eruð þið þá búin að að ná utan um þá sem tengdust þessum þremur sem nú eru smitaðir? 

„Já.“

Smit hjá Fylki, Stjörnunni og Breiðabliki

En það er nú breytt því undir kvöld kom í ljós nýtt smit. Það tengist þriðja félagsliðinu í fótboltanum; Fylki. Knattspyrnukona í liðinu er smituð. Fyrsta smitið greindist í knattspyrnukonu í Breiðabliki, annað í starfsmanni ráðuneytis ferðamála og það þriðja í knattspyrnumanni í Stjörnunni. Samkvæmt heimildum Fréttastofu er talið að tengingin milli þessa fólks sé í gegnum útskriftarveislu fyrir viku. Samtals eru gestir úr fimm veislum í sóttkví. Íslensk erfðagreining er að greina veirur úr fyrstu þremur smitunum því ekki er víst að uppruni smitanna sé sá sami.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Ævar Pálmi Pálmason.

Svipað og í upphafi faraldursins

Smitrakning fer nú í fullan gang vegna nýja smitsins. 

„Þetta minnir svoldið á fyrstu daga í smitrakningum þ.e.a.s. núna í vetur þar sem einmitt fólk var bara að sinna sínu daglega lífi. Og við getum sagt það að lífið hafi svoldið verið komið í sitt fyrra horf. Fólk er bara að ferðast og við höfum verið að tala við fólk sem er komið í útilegur og fólk sem er jafnvel komið erlendis og þarf þá að gera ráðstafanir og fara í sóttkví.“

Unglingavinnuhópur í sóttkví

Fólkið í sóttkví er á öllum aldri en þó fleiri í yngri kantinum og það má ekki hætta í sóttkví þótt sýni þeirra hafi verið neikvætt. 

„Það eru alveg nokkrir hópar bæði vinnustaðir og svo íþróttahópar og svo fjölskyldur. Og unglingar er það ekki, einhver unglingahópur, vinnuskólinn? Já, það er þarna eitt tilfelli tengist vinnuskóla og það er einmitt verið að hafa samband við foreldra þeirra núna.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Starfsmenn smitrakningateymisins hafa í nógu að snúast.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi