Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Níundu forsetakosningar lýðveldistímans

28.06.2020 - 01:31
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Forsetakosningarnar núna eru þær níundu frá stofnun lýðveldisins. Fyrstu almennu forsetakosningarnar voru háðar árið 1952 eftir að Sveinn Björnsson lést í embætti.

Næst var nýr forseti kjörinn sextán árum síðar og aftur tólf árum eftir það. Ásgeir Ásgeirsson og Kristján Eldjárn sátu á Bessastöðum og sinntu sínum störfum án þess að nokkurn tíma stefndi í framboð gegn þeim.

En tímarnir breytast og mennirnir með. Nú fær sitjandi forseti Íslands mótframboð í fjórða skipti. Framan af lýðveldistímanum virðist mótframboð hafa þótt nánast útilokað.

Þegar Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur árið 1988 þótti það móðgun og hin mesti dónaskapur. Svo fór að Vigdís hlaut yfirburðakosningu eða tæp 93% atkvæða.

Samfélagið og forsetaembættið hafa tekið miklum breytingum síðan þá. Ólafur Ragnar Grímsson fékk fyrst mótframboð árið 2004 þar sem hann sigraði með 67,5 prósentum atkvæða. Þá buðu tveir sig fram gegn honum.

Ólafur Ragnar sló úr og í með fyrirætlanir sínar um áframhaldandi setu árið 2012. Fjöldi fólks hóf að undirbúa framboð sitt og frambjóðendur urðu alls sex. Ólafur sigraði þá með tæpum 53 prósentum atkvæða.

Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti um áramótin að hann hygðist gefa kost á sér sem forseti áfram. Fljótlega tóku að berast tilkynningar um fyrirhuguð framboð gegn honum.

Nokkrir hófu að safna þeim 1500 meðmælendum sem þarf til að geta gefið kost á sér en aðeins Guðmundi Franklín Jónssyni tókst ætlunarverkið. Aldrei hefur verið skorað á forseta eftir fyrsta kjörtímabil fyrr en nú.

Niðurstaða kosninganna virðist ætla að verða sú að Guðni Th. Jóhannesson forseti fái 90% atkvæða.