Neita að hafa frétt af verðlaunagreiðslum Rússa

epa08511285 US President Donald J. Trump delivers remarks at the American Workforce Policy Advisory Board Meeting at the White House, in Washington, DC, USA, 26 June 2020.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris Images POOL
Hvíta húsið þvertekur fyrir að forsetinn og varaforsetinn hafi nokkurn tímann fengið veður af því að Rússar hafi boðið vígamönnum tengdum Talíbönum fé til höfuðs bandarískum hermönnum í Afganistan.

 

New York Times greindi frá því á föstudag að þetta hafi verið tilkynnt á reglulegum upplýsingafundi forsetans á skrifstofu hans í mars. 

Í grein Times segir að Rússlandsstjórn hafi eflt aðgerðir sínar til að reyna að grafa undan Bandaríkjastjórn og bandaþjóðum hennar, á sama tíma og Donald Trump Bandaríkjaforseti reynir að ná friðarsamkomulagi við Talíbana. Auk þess að setja verðlaunafé til höfuðs bandarískum hermönnum buðu Rússar einnig verðlaun fyrir að drepa breska hermenn, segir í greininni. Deildin sem sögð er hafa séð um verkefnið er sú sama og skipulagði morðtilraunina á gagnnjósnaranum Sergei Skripal. 

Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir hvorki Trump né varaforsetann Mike Pence hafa fengið nokkuð veður af þessu. Hún sagði þetta fremur benda til ónákvæms fréttaflutnings New York Times en nokkurs annars. 

Rússlandsstjórn hefur einnig kvatt sér hljóðs vegna greinar Times. Sendiráðið í Washington skrifaði á Twitter að ásakanirnar séu tilhæfulausar og greinin hafi þegar lagt líf starfsmanna sendiráða Rússa í Washington  og Lundúnum í hættu.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi