
Næst stærsti kosningasigur frá upphafi
Frá því almenningur kaus forseta Íslands í fyrsta sinn árið 1952 hefur 31 einstaklingur boðið sig fram samtals 37 sinnum í þeim níu forsetakosningum sem hafa verið haldnar á 68 árum. Það hefur aðeins fimm sinnum gerst að frambjóðandi hafi hlotið meirihluta atkvæða. Það hefur fimm sinnum gerst að frambjóðandi hafi fengið innan við eitt prósent atkvæða, þar af fjórum sinnum í forsetakosningunum fyrir fjórum árum.
Enginn hefur fengið jafn góða kosningu og Vigdís Finnbogadóttir árið 1988. Þá hafði hún setið á forsetastóli í átta ár. Sigrún Þorsteinsdóttir varð fyrst til að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta í 44 ára sögu forsetaembættisins. Vigdís hlaut þá 94,6% atkvæða en Sigrún 5,4%.
Guðni Th. Jóhannesson náði næst besta árangri frambjóðanda í gær, 92,2% atkvæða. Árið 2004 hlaut Ólafur Ragnar Grímsson 85,6% atkvæða þegar hann fékk tvö mótframboð eftir átta ár á forsetastóli. Þar verður þó að taka með í reikninginn að fimmtungur kjósenda skilaði auðu. Forsetakosningar voru það árið haldnar skömmu eftir að Ólafur Ragnar synjaði lögum frá Alþingi staðfestingar fyrstur forseta. Ólafur Ragnar hlaut 52,8% atkvæða í kosningunum 2012. Hann er því eini forsetinn til að fá tvisvar meirihluta atkvæða, en líka eini forsetinn til að fá tvisvar mótframboð eftir að hafa setið í embætti.
Kristján Eldjárn var eini frambjóðandinn til að ná meirihluta atkvæða í fyrstu atlögu. Hann fékk 65,6% atkvæða í baráttu sinni við Gunnar Thoroddsen sem átti síðar eftir að verða forsætisráðherra.