Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Listaritstjóri BBC móðgaður fyrir hönd Íslendinga

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix

Listaritstjóri BBC móðgaður fyrir hönd Íslendinga

28.06.2020 - 12:03

Höfundar

Listaritstjóri breska ríkisútvarpsins segir Eurovision-mynd Wills Ferrells þreytandi og ófyndna. Það sem verra er, hún dragi upp fávísa og leiðigjarna mynd af Íslendingum.

Myndin var frumsýnd á Netflix á föstudag og eru gagnrýnendur almennt sammála um að þar sé góðum efnivið sem hafi alla burði til að verða að sprenghlægilegri gamanmynd sóað. 

Will Gompertz, listaritstjóri breska ríkisútvarpsins BBC, hefur dóm sinn um myndina með umfjöllun um verk Ragnars Kjartanssonar, The Visitors, sem hafði djúpstæð áhrif á hann þegar hann sá það í Barbican-listasafninu árið 2016. Ragnar hefur lýst verkinu sem virðingarvott við ABBA og segir hann hljómsveitina vera áhrifavald í sinni listsköpun. Það eiga aðalpersónur myndarinnar Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga og Ragnar sameiginlegt, segir Gompertz í dómi sínum.

Gompertz er hins vegar ekki par ánægður með það hvernig Íslendingar eru teiknaðir upp í myndinni. Handritið sé fyrirsjáanlegra en svissneskt úr, leikarar hafi léleg tök á hinum ýmsu hreimum og persóna Wills Ferrells, Lars, sé ekki nánda nærri nægilega elskuleg til að bjarga myndinni. „Það sem verra er,“ segir Gompertz, „er myndin sem dregin er upp af Íslendingum og menningu þeirra – sem samansafn ófágaðra, bjórþambandi, hvalaglápandi, lopapeysuklæddra einfeldninga – leiðigjörn og fávís.“

Gompertz heldur áfram: „Ragnar Kjartansson er ekki einsdæmi eða útsker, hann er ekki maður sem á einhvern hátt tókst að ryðja sér braut sem listamaður og þar með komast undan óhjákvæmilegu sjómannslífi. Ísland býr að blómlegu listasamfélagi, sem hefur alið af sér afburðasnjalla rithöfunda, tónlistar- og myndlistarfólk. Þau spruttu ekki upp úr engu, heldur risu þau upp úr frjóum jarðvegi vitsmunafólks sem ljá landinu aðdráttarafl fyrir listafólk um víða veröld.“

Myndin fær svo litlar tvær stjörnur. „Þetta er góð hugmynd, en illa útfærð og hvorki fyndin né slyng. “

Dóm Will Gompertz má lesa á vef BBC.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Íslenskum Eurovision-aðdáendum líkar mynd Ferrells

Kvikmyndir

Heimsfrumsýning breyttist í heimapartý

Kvikmyndir

Eurovision-mynd Ferrells ekki sögð upp á marga fiska

Kvikmyndir

Hópur Íslendinga í stiklu Euro-myndar Will Ferrell