Liðin tíð að konan ætti að sinna ólaunuðu starfi

28.06.2020 - 19:05
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Eliza Reid forsetafrú hlakkar til næstu fjögurra ára og segir að börn hennar og Guðna Th. Jóhannessonar forseta séu ánægð að þurfa ekki að flytja og skipta um skóla. Guðni sagði í viðtali í nótt að hann hefði reiðst þegar vegið hefði verið að Elizu vegna verkefna hennar fyrir Íslandsstofu. Eliza segir að í gær hafi sýnt sig að meirihluti fólks sé sammála henni, sá tími sé liðinn þegar konan var heima að sinna ólaunuðu starfi.

„Þetta er góð tilfinning og ég hlakka til framtíðarinnar næstu fjögur ár,“ sagði Eliza á Bessastöðum í dag. „Börnin eru ánægð, þurfa ekki að flytja eða skipta um skóla og vilja halda áfram. Ég held að fyrstu árin og mánuðina erum við að læra hvar fundarherbergin eru, hvað má og hvað má ekki. Núna er tækifæri til að halda áfram aðeins og við getum byrjað strax frá 1. ágúst að vera virk.“

Guðni sagði á kosningavöku RÚV í gær að hann hefði reiðst í kosningabaráttunni þegar vegið var ómaklega að honum og þó sérstaklega þegar honum þótti vegið að Elizu fyrir að starfa utan heimilis, hún hefur til dæmis starfað við verkefni hjá Íslandstofu. „Mér finnst auðvitað bara gott að hafa umræðu í samfélaginu. En mér sýnist að það sem gerðist í gær er að meirihluti fólksins er sammála mér. Tíminn er liðinn þegar fólk var að hugsa að það er karlmaður í fjölskyldunni og konan var heima að sinna ólaunuðu starfi.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra samgladdist þeim hjónum í dag. „Úrslitin komu kannski ekki beint á óvart. Þetta er auðvitað mjög skýr og afgerandi stuðningur við Guðna Th og Elizu Reid og ég held að þetta sýni að þjóðin meti það sem þau hafa verið að gera,“ sagði Katrín.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi