Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leiðtogahæfni Klopp fyrirmynd fyrir Guðna Th.

Mynd: RÚV / RÚV

Leiðtogahæfni Klopp fyrirmynd fyrir Guðna Th.

28.06.2020 - 14:08
Guðni Th. Jóhannesson var í gær endurkjörinn sem forseti Íslands. Í viðtali eftir sigurinn sagðist Guðni sérstaklega horfa til leiðtogahæfni Jurgen Klopp þrátt fyrir að styðja ekki Englandsmeistaranna.

Samkvæmt Guðna þarf góður leiðtogi ekki endilega að láta mikið á sér bera og á ekki að leita að átökum. Hann nefndi einnig að góður leiðtogi eigi að geta viðurkennt mistök og eigi ekki að kenna öðrum um ef eitthvað misferst. 

Guðni færði sig þá yfir í íþróttirnar og tók Jurgen Klopp sem dæmi. 

„Leyfðu mér samt að færa okkur inn á völl íþróttanna. Nú held ég ekki með liðinu sem varð Englandsmeistari í knattspyrnu nú fyrr í vikunni en samgleðst þeim sem halda með því ágæta liði. Það er leiðtogi Jurgen nokkur Klopp. Hann hefur sýnt, finnst mér, öðrum fremur. Nú er ég ekki að bera saman, ég ítreka það aftur, íþróttir sem eru leikur og lífsins alvöru, stjórnmál, embætti forseta, samfélagið í heild sinni. En það að geta borið ábyrgð en um leið sýnt auðmýkt er nokkuð sem Klopp sýndi vel. Það að geta verið kappsamur en um leið sýnt kurteisi, verið fullur festu en líka mýktar. Þannig eru góðir leiðtogar og þannig vona ég að ég mér auðnist að vera nú þegar önnur fjögur ár taka við."