
Innanlandssýni neikvæð en 2 ný smit við landamæraskimun
Langflest innanlandssýnanna eru úr fólki sem er í sóttkví og hefur tengsl við knattspyrnukonuna úr Breiðabliki sem kom frá Bandaríkjunum 17. júní og greindist á miðvikudaginn, ráðuneytisstarfsmanninum og knattspyrnumanninum úr Stjörnunni sem bæði greindust á föstudag.
Allir gestir úr fimm veislum um síðustu helgi fór í sóttkví vegna þessi, hluti knattspyrnufólks í Breiðabliki, KR og Stjörnunni og fleiri.
Nú er hugsanlegt að uppruni smitsins sé annar en talinn var, það er að knattspyrnukonan í Breiðabliki hafi ekki smitað hina og að hugsanlega sé knattspyrnumaðurinn í Stjörnunni með innanlandssmit. Því var ákveðið að raðgreina veiruna í þessum þremur smituðu og starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar var ræst út í gær þess vegna.
Niðurstöðu raðgreiningarinnar er að vænta á morgun.
Áfram verða tekin sýni úr fólki sem sett var í sóttkví vegna tengsla við þremenningana að því er Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra sagði í hádegisfréttum RÚV .
„Þetta er svona bara hluti af þessari skimun sem við settum í gang og við erum að taka af fleirum í dag og við erum að útvíkka þessar skimanir, það er í staðinn fyrir að vera með svona almennar skimanir eins og var í vetur þá erum við að setja ákveðna hópa í skimun þó þeir tengist ekkert endilega tilfellunum. En þetta er svona hluti af þessari samfélagsskimun sem við viljum setja í gang í tengslum við þetta“ sagði Víðir sem kveður ekki fleiri hafa verið setta í sóttkví.
Smitrakningu sé hins vegar ekki lokið.