Hótaði starfsfólki með hnífi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Tvær tilkynningar um líkamsárás bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og þá hótaði maður starfsfólki vínveitingastaða í borginni með hnífi.

Það var rétt fyrir sjö í gærkvöldi sem tilkynnt var um líkamsárás í miðborginni. Er lögregla kom á vettvang var árásaraðilinn farinn af vettvangi, en sá sem fyrir árásinni varð reyndist bólgin í andliti og með brotna tönn. Hann var einnig mjög ölvaður og nánast útilokað að fá framburð hans varðandi árásina. 

Var farið með hann á bráðadeild Landspítalans til aðhlynningar og er málið í rannsókn.

Á tólfta tímanum í nótt var lögregla svo kölluð að veitingahúsi í Hafnarfirði, en þar hafði kona verið slegin í andlitið. Farið var með hana á bráðadeildina til aðhlynningar, en gerandinn var farinn af vettvangi.

Hálftíma síðar bárust tilkynningar frá vínveitingastöðum í miðborginni vegna manns sem þar hafði farið inn á tvo staði, stolið áfengisflöskum og hótað starfsfólki með hnífi. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu í nótt vegna rannsóknar málsins.
 

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi